Allt tínt til sem tefur: Sundabraut fjarlægari framkvæmd nú en árið 2006

Dagur B. Eggertsson, fv. borgarstjóri og Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra við undirritun yfirlýsingar um lagningu Sundabrautar. Þrátt fyrir það er hún enn fórnarlamb endalausra tafaleikja stjórnmálamanna sem tala nýlensku.

Borgaryfirvöld hafa hagað málum þannig gagnvart undirbúningi Sundabrautar, að framkvæmdin er í reynd fjarlægari möguleiki nú en árið 2006, þrátt fyrir ítrekaðar viljayfirlýsingar og loforð um forgang, segir Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins.

Bergþór ræddi málin í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag, en hann var einmitt aðstoðarmaður samgönguráðherra á árunum 2003-2006, og segir í grein í Morgunblaðinu í dag að með kynningu Vegagerðarinnar á mögulegri legu undanfarna daga, hafi „enn einn tjaldhællinn verið rekinn niður í þessari vinnu.“ Það sé til bóta, en áform um að opna fyrir umferð árið 2031 séu hæpin, enda hafi fram til þessa allir steinar sem fundist hafa, verið lagðir í götu þessa verkefnis.

„Landsvæðið undan heppilegustu veglínu Sundabrautar var selt með hraði til verktaka fyrir íbúabyggð svo sú leið varð ófær. Byggð hefur verið þrengt upp að áætlaðri veglínu í Gufunesinu, stæðilegustu „bráðabirgða“ húsum hefur verið komið fyrir í vegstæðinu og svo mætti lengi telja. Það er því ekki skrýtið að maður stoppi við og hugsi – hvaða steinn ætli verði tekinn næst og lagður í götu Sundabrautar. Hvernig verður næst komið í veg fyrir þessa arðsömustu samgöngubót landsins?“ segir Bergþór í grein sinni og svarar sjálfur spurningunni.

„Ég sé þegar glitta í einn. Nú er það orðið svo að til að leggja megi Sundabrautina þá verði fyrst að leggja Sæbrautina í stokk. Það er verkefni sem kostar ævintýralega mikið og bætir engu við hvað umferðarrýmd varðar, það verða áfram tvær akreinar í hvora átt á Sæbrautinni. Það hefur alla tíð verið lykilsjónarmið fulltrúa Reykjavíkurborgar að tengja verkefnin tvö ekki saman, þ.e. lagningu Sundabrautar og samgöngusáttmálann, með Sæbrautarstokki eða ekki.

Sundabrautin hefur, til þessa, verið utan við samgöngusáttmálann. En nú er það skyndilega svo að hinn rándýri Sæbrautarstokkur er orðinn forsenda Sundabrautar, svo Sundabraut geti tengt við Sæbraut vestan Kleppsvíkur. Það er og verður vandséð hvernig þessi forsenda kom til, nema þá helst til að þeir sem mestu ráða í Reykjavík geti enn tafið verkefnið og lagt annan stein í götu þess. Borgarstjórinn vill ekki Sundabrautina – það er orðið dagljóst,“ bætir hann við.