Alvarlegar og ósannar ávirðingar á einstakling sem liggur vel við höggi

Jón Bjarnason, fv. ráðherra og rektor.

Jón Bjarnason, fv. ráðherra og rektor, telur að fréttaflutningur Bylgjunnar um helgina, þar sem því var ranglega haldið fram að Gunnar Bragi Sveinsson fv. utanríkisráðherra hafi verið ölvaður og með frammíköll á leiksýningu á dögunum, sýni mikilvægi þess að leggja áherslu á grundvallaratriði  í blaðamennsku og friðhelgi einkalífs.

Hann bendir á að síðdegis á laugardag, eftir að fréttin hafði staðið yfir allan hádaginn, nokkra klukkutíma, hafi ritstjórinn fundið sig knúinn til að biðjast afsökunar, fréttin  væri ósönn og rakalaus og afturkallað hana. 

„Svo gæti virst sem fréttamenn þar á bæ hafa talið sig geta sloppið í gegn án þess að nokkur hreyfði litla fingri til varnar,“ segir Jón sem sat lengi á þingi fyrir Vinstri græna og var svo ráðherra seinni hluta þingferils síns.

„Fréttin hefði á skömmum tíma orðið að sannleika „Gróu á Leiti“ sem margir virðast dá þessa dagana,“ segir hann í pistli á vefsíðu sinni.

Sonur Gunnars Braga sýndi kjark

„Fjöldi annarra leikhúsgesta á sömu sýningu hefur tjáð sig á fésbók, staðfest orð Róberts Smára og lýst mikilli vanþóknun á fréttaflutningnum, sem nú hefur verið borinn til baka,“ segir Jón og hrósar syni Gunnars Braga, Róberti Smára Gunnarssyni, sérstaklega fyrir kjarkinn sem hann sýndi þegar hann reit pistil og hrakti söguburðinn um föður sinn.

Gunnar Bragi Sveinsson þingmaður og fv. utanríkisráðherra.

„Ég get sjálfur ekki orða bundist og maður spyr sig hvert er samfélagsumræðan komin.  

Væri ekki tilefni til þess að Siðanefnd Blaðamannafélagsins færi yfir viðlíka fréttaflutning og kanna hvernig hann kemst áfram  þar sem bornar eru alvarlegar og ósannar  ávirðingar á einstakling sem þykir liggja markaðslega vel við höggi?

Frjáls fjölmiðlun, heiðarleg og vakandi fréttamennska eru hornsteinar lýðræðis og mannréttinda.

Falsfréttir vaða uppi

Línan um persónufrelsi, friðhelgi einkalífs, mannréttindi og sannsögli hefur verið teygð á síðustu vikum og misserum.

Falsfréttir vaða nú uppi um allan heim, eru ógn við lýðræðið og gera enn ríkari kröfur til vandaðar blaðamennsku.  

Væri ekki rétt að Siðanefnd Blaðamannfélagsins fjallaði um og léti eitthvað frá sér fara um  þá breyttu stöðu sem komin er upp í fjölmiðlun bæði hér á landi og í heiminum. 

Öll umfjöllun tengd  „Klausturmálinu“ gæti einnig verðskuldað slíka innri athugun.

 Vonandi hafa ekki allir fjölmiðlamenn talað sig vanhæfa eins og forseti Alþingis telur sig hafa gert af forsetastóli þingsins. 

 Róbert Smári Gunnarsson á mikinn heiður skilið fyrir að taka svo vasklega upp varnir gegn ósönnum fréttaflutningi „Gróu á Leiti“ um föður sinn,“ segir Jón Bjarnason.