Það eru ekki þekkt dæmi frá fyrri tíð um að borgarstjórinn hafi reynt að firra sig ábyrgð á borgarrekstrinum eða stærstu málum borgarinnar með því að kenna undirsátum sínum um. Nú er það oftar en hitt að borgarbúar fái að heyra og sjá undanhlaup af því tagi.
Þetta segir Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins í Reykjavíkurbréfi helgarinnar, en hann var sem kunnugt er, borgarstjóri í Reykjavík um árabil áður en hann fór í landsmálin.
„Hvort sem málin snúast um brjálæðislega dýra bragga, strá eða pálma eða þjónustu sem lofað var án efnda. Borgarstjórinn kemur jafnan af fjöllum og kennir óþekktum aðilum í borgarrekstrinum um allt sem fór úrskeiðis. Viðbrögðin við braggamálinu liggja nú fyrir og þau virðast eiga að felast í því að skipta um nöfn á nokkrum ráðum! Er mönnum alvara? Þegar stóralvarlegt hneyksli kom upp sem snerti holræsamál og útbíaðar fjörur þar sem leikskólabörn fóru um, þá lét borgarstjórinn einn undirmanna sinna gefa sér vottorð um að þessi stórmál væru ekki á ábyrgð hans að neinu leyti.
Viðbrögðin við fyrrgreindum málum og svo ótalmörgum þar á undan draga upp þá mynd að engu er líkara en að borgarstjórinn sé að reyna að sanna að hann sjálfur sé óþarfi maðurinn í borgarrekstrinum,“ segir hann ennfremur.
En Davíð segir að þótt öll þessi hneyksli séu bölvuð og skaðleg er það seinasta sýnu alvarlegast.

„Það þarf mikið til að Persónuvernd skuli að eigin frumkvæði taka upp mál sem snýr að framgöngu borgaryfirvalda í aðdraganda kosninga. Þar er úrslitamál sem tengist tryggingu lýðræðisins á ferð. Misferli þar er með því alvarlegasta sem upp kemur,“ segir Davíð og bætir við að sama sé hvar drepið sé niður af hálfu eftirlitsaðila með stjórnsýslu Reykjavíkurborgar, alls staðar er um lögbrot eða annars konar ámælisverða hluti að ræða.
Þegar liggur fyrir að borgarstjórinn og æðstu starfsmenn borgarinnar hafa eytt eða látið eyða tölvupóstum sem tengjast fyrra hneykslismáli og sætir furðu að lögregla hafi ekki verið kvödd til.
„Að misnota aðstöðu sína til að hafa áhrif á kjósendur á lokadögum kosningabaráttu sýnir að valdhöfum í ráðhúsinu er ekkert heilagt.“
Og Davíð bætir við:
„Þau afskipti sem pólitískir forystumenn höfðu með þessum hætti af kosningum í Reykjavík kveikja fjölmörg aðvörunarljós. Við fyrstu sýn virðast þarna á ferðinni þættir sem gætu leitt til þess að borgarstjórnarkosningar yrðu ógiltar. Skoðanakannanir hafa lengi sundurgreint hverjir séu líklegastir til að kjósa einstaka flokka sé horft til kyns, aldurs, upprunalands og þar fram eftir götunum. En að Reykjavíkurborg skuli fara í mikið átak með tilheyrandi útgjöldum til að tryggja umfram aðra að tileknir hópar kjósi að þessu sinni er grafalvarlegt eins og hver maður sér. Það mætti hugsa sér að borgarstjórnin öll ræddi um hvort hvetja bæri þá sem hafa kosningarétt í Reykjavík til að nota hann. En jafnvel það myndi orka tvímælis þótt allir þeir sem kæmu að þeirri ávörðun væru einhuga, því að þeir sem væru að hugleiða eða undirbúa framboð kæmu hvergi að.

Persónuvernd gerir mjög alvarlegar athugasemdir. Við blasir að um mjög alvarlega misnotkun var að ræða og reynt var með öllum ráðum að blekkja Persónuvernd. Borgarstjórn þarf að fara rækilega yfir málið og hverjir það voru sem tóku ákvörðun um þá misnotkun, vissu um hana eða komu að öðru leyti að undirbúningi hennar. Í stórmáli eins og þessu þýðir ekki að hlaupast undan allri ábyrgð. Það er ekki líklegt að æðsta stjórn borgarinnar geti komið ábyrgð á almenna starfsmenn borgarinnar.
Þegar liggur fyrir að borgarstjórinn og æðstu starfsmenn borgarinnar hafa eytt eða látið eyða tölvupóstum sem tengjast fyrra hneykslismáli og sætir furðu að lögregla hafi ekki verið kvödd til. Það eru til fordæmi fyrir því hvernig má bregðast við alvörumálum af þessu tagi,“ segir Davíð Oddsson ennfremur í Reykjavíkurbréfi sínu.