Arnar Þór í fundaferð um landið og íhugar stofnun nýs stjórnmálaflokks til hægri

„Allir kjörnir þingmenn hafa unnið drengskaparheit að stjórnarskránni og ber á þeim grundvelli að standa vörð um íslenska lýðveldið og lýðræðislegt stjórnarfar með öllu sem í því felst, þ.m.t. um málfrelsið. Af þessu leiðir að engum þingmanni leyfist að grafa undan framangreindum burðarstoðum samfélagsins, hvorki með stuðningi við valdframsal til erlendra stofnana né með ,,aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu“ sem miðar að því að takmarka möguleika fólks á því að orða hugsun sína og gagnrýna ráðandi öfl.

Þótt framangreint gildi sannarlega um alla þingfulltrúa tel ég að þingmenn Sjálfstæðisflokksins beri sérstaklega ríkar skyldur í þessu samhengi. Eftir að hafa átt samtöl við þingmenn allra flokka á fundi utanríkismálanefndar síðasta mánuði tel ég ljóst að fæstir þeirra eru vakandi fyrir þeim ólýðræðislegu straumum sem dynja á okkur þessi misserin,“ skrifar Arnar Þór Jónsson varaþingmaður og formaður Félags sjálfstæðismanna um fullveldismál á vefsíðu sinni.

Hann segir kannski leiðina þá, að vekja almenning. Þess vegna boðar hann nú fundaferð um landið.

„Kannski er eina leiðin til að vekja þingmenn sú, að vekja almenning. Í þeim tilgangi mun ég, ásamt öðrum, standa fyrir málfundum í ágústmánuði, á nokkrum stöðum víðs vegar um landið, a.m.k. á Akureyri, Selfossi og Egilsstöðum, áður en fundað verður á höfuðborgarsvæðinu.

Ef eitthvert líf er í Sjálfstæðisfélögunum víðsvegar um landið gætu þau boðist til að auglýsa slíka fundi. Þar verður rætt um sjálfstæðisstefnuna, tilgang Sjálfstæðisflokksins og verk núverandi þingflokks lögð á þær vogarskálar. Fundirnir eru hugsaðir sem hvatning og málefnaleg gagnrýni, þar sem ekki verður vegið að persónum. Sem fyrr eru þingmenn hvattir til að sækja þessa fundi og standa fyrir sínu máli,“ bætir hann við.

Eins og Viljinn skýrði frá fyrr í vikunni, sagði Arnar Þór á aðalfundi Félags sjálfstæðismanna um fullveldismál í vikunni, að „ef Sjálfstæðisflokkurinn treystir sér ekki til að standa undir þessu hlutverki sínu er óhjákvæmilegt að til verði nýr flokkur hægra megin við miðju, sem mun taka upp þann kyndil klassísks frjálslyndis og hófstillts íhalds, sem Sjálfstæðisflokkur nútímans virðist vera að leggja frá sér. Hefur Sjálstæðisflokkurinn efni á að slíkur klofningur verði?“