Arnar Þór tilkynnir forsetaframboð

Arnar Þór Jónsson fv héraðsdómari og nú varaþingmaður. / RAX.

Arnar Þór Jónsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og fv. héraðsdómari, tilkynnti í morgun á blaðamannafundi á heimili sínu, að hann hyggist gefa kost á sér í embætti forseta Íslands í forsetakosningunum í sumar.

Arnar tilkynnti á fundinum að hann hafi sagt sig úr Sjálfstæðisflokknum, enda aðhylltist hann ekki lengur stefnu flokksins. Kvaðst hann aðhyllast beint lýðræði og Íslendingar þyrftu að hætta að gefa frá sér vald. Sagðist hann vilja verða „afkastameiri forseti“ sem gæfi „fólkinu rödd“.

Ákvörðun Guðna Th. Jóhannessonar um að sækjast ekki eftir endurkjöri hafi gert það að verkum að hann ákvað að láta slag standa, enda hafi hann lengi haft miklar áhyggjur af því valdaframsali sem átt hafi sér stað til erlendra stofnana. Mikilvægt sé að staldra við í þeim efnum og nefndi hann til að mynda kosti þess að aðkoma þjóðarinnar verði meiri gagnvart frekara valdaframsali til Brussel vegna EES-samningsins.

Arnar Þór hefur verið formaður Félags fullveldissinna innan Sjálfstæðisflokksins og verið afar gagnrýninn á stefnu flokksins, t.d. vegna þriðja orkupakkans og bókunar 35.