„Þvert á sannleikann þá virðist þema áróðursins vera einhvers konar andiðnbylting, íslensk orkuvinnsla er slæm, íslensk iðnaðaruppbygging er slæm og íslenskir atvinnurekendur eru slæmir. Það er í lagi að beita ofbeldi ef að málstaðurinn er góður,“ segir Jóhannes Loftsson verkfræðingur og formaður Frjálshyggjufélagsins í pistli á spjallsvæði félagsins.

Jóhannes tekur nokkur dæmi um það sem hann kallar Menningarbyltingu góða fólksins:

„Ófærð 2: Borun eftir jarðhita veldur Suðurlandsskjálftum sem brýtur leirtau og losar eiturgas úr jörðinni sem drepur allt kvikt. Íslenskir bændur eru þjóðlegir rasístar á móti allri iðnuppbyggingu enda er stóriðja og orkuvinnsla á Íslandi í eigu gráðugra kapitalista sem vilja ekki ráða heimamenn til starfa. Ofbeldi fyrir málstaðinn er skiljanlegt, þar sem það er gert til að vernda náttúruna og koma í veg fyrir að útlendingar steli landinu.

Kona fer í strið: Það er cool að hata rafmagn. Hryðjuverk í þágu umhverfisverndar eru hetjuvirki en ekki ofbeldi og saklausir útlendingar eru oft grunaðir um glæpi að ósekju. Ýmsir hafa lofað myndina fyrir „boðskapinn“.

Skaupið: Pia Kærgaard er rasisti, það eru allir sammála um að Borgarlínan sé æðisleg og fleira í þeim dúr.

Auglýsingaherferð VR leikin af frægasta grínista landsins: Íslenskir atvinnurekendur féfletta starfsfólk sitt, þvinga fársjúkt fólk til að vinna og þvingar starfsfólk til að vinna á aðfangadagskvöld.“

Áróður falinn í skemmtiefni

„Eitt meginþema Göbbels var að fela áróður í alls konar skemmtiefni. Slíkur áróður þurfti ekki að vera pólitískur, heldur var oft betra að beita menningalegum áróðri. Ef slíkur áróður er endurtekinn nægilega oft, þá getur áróðurinn verið það öflugt tól að meira að segja upphafsmaður lygarinnar fer að trúa henni.

Jóhannes Loftsson, formaður Frjálshyggjufélagsins. / Ljósmynd: Facebook.

Í þessu ljósi er áhugavert að horfa til íslenska menningaráróðursins í nýlegu dæmunum hér að framan sem byggja öll á útúrsnúning eða lygi.

Jarðskjálftar verða ekki vegna jarðhitaborana. Örskjálftarnir í Hellisheiðarvirkjun tengdust niðurrennslisprófunum sem er aðferð sem síðar var nýtt til að dæla allri loftmengun frá virkjuninni aftur niður í jörðina.

Brennisteinsvetni er bara hættulegt rétt í útblæstri virkjunarinnar. Brennisteinsvetnislykt er skaðlaus og við erum ofurnæm á lyktina til að vara okkur við skemmdum matvælum.

Kárahnúkavirkjun og álverið í Reyðarfirði gjörbreyttu Austurlandi og sneru atvinnuþróun við og því voru heimamenn mjög fylgjandi framkvæmdunum. Mótmælendurnir voru flestir kaffe-latte lið úr 101.

Ofbeldisskemmdarverk eins og að slá út rafmagnslínur getur haft gríðarleg neikvæð áhrif. Þannig getur of löng stöðvun álvers valdið tjóni upp hátt í 10 milljarða (ef kerin skemmast),“ segir formaður Frjálshyggjufélagsins ennfremur.