Áskor­an­ir framtíðar­inn­ar kalla á að ólíkt fólk geti unnið sam­an

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

„En það eru blik­ur á lofti í heims­mál­un­um. Aldrei hafa fleiri verið á flótta síðan seinni heims­styrj­öld­inni lauk. Fólk flýr átök og einnig lofts­lags­breyt­ing­ar vegna breyt­inga á veðri og um­hverfi. Þá hef­ur alþjóðavæðing gert það að verk­um að æ fleiri ferðast á milli landa til að lifa og starfa. Þess­ar nýju áskor­an­ir á alþjóðasviðinu krefjast þess að við stönd­um styrk­ari vörð um mann­rétt­indi en nokkru sinni fyrr og leggj­um okk­ar af mörk­um í bar­átt­unni gegn lofts­lags­breyt­ing­um. Þess vegna skipta samþykkt­ir Sam­einuðu þjóðanna á borð við þá sem samþykkt var í Marra­kesh nú í des­em­ber máli, því þær byggj­ast á þeirri hugs­un að mann­rétt­indi séu al­gild fyr­ir okk­ur öll.“

Þetta skrifar Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í grein sem birtist í áramótablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Hún segir að á alþjóðavett­vangi megi einnig sjá til­hneig­ingu til að loka sig af; ein­angra sig frá „hinum“ og byggja múra á milli sín og hinna.

„Þessi til­hneig­ing ógn­ar hefðbundn­um skiln­ingi okk­ar á mann­rétt­ind­um því múr­arn­ir fjar­lægja okk­ur enn hvert öðru og ala á tor­tryggni og ótta. Múr­arn­ir eru ekki all­ir áþreif­an­leg­ir. Suma sjá­um við alls ekki á ver­ald­ar­vefn­um en þeir skipta okk­ur upp í ólík berg­máls­her­bergi þar sem við töl­um hvert við annað og ekki við hin sem eru ólík okk­ur.“

Við eigum öll eitthvað í samfélaginu

Forsætisráðherra segir að til séu aðrar leiðir en að byggja múra og reisa hindr­an­ir.

„Önnur leið er til að mynda sú að byggja upp ákveðna sam­fé­lags­lega innviði og tryggja þannig að við eig­um öll eitt­hvað í sam­fé­lag­inu. Við get­um kallað það al­manna­rýmið. Al­manna­rýmið er mik­il­væg­ur staður fyr­ir sam­fé­lög, rými þar sem ólík­ar stétt­ir og ólík­ir hóp­ar koma sam­an á jafn­ræðis­grund­velli. Al­manna­rýmið er ekki aðeins Aust­ur­völl­ur eða Lystig­arður­inn á Ak­ur­eyri. Al­manna­rýmið eru grunn­skól­arn­ir þar sem við öll kom­um sam­an en líka heilsu­gæsl­an og lög­reglu­stöðin – rými sem við eig­um sam­eig­in­lega og get­um reitt okk­ur á.

Al­mannaþjón­usta er í raun al­manna­rými. Hún hef­ur því hlut­verki að gegna að tvinna sam­an ólíka þræði sam­fé­lags­ins og tryggja að við sitj­um öll við sama borð; að við njót­um öll jafn­ræðis og sam­bæri­legr­ar þjón­ustu. Og þannig trygg­ir hún jöfn tæki­færi okk­ar allra, tæki­færi til að lifa og starfa og tæki­færi til að taka þátt í sam­fé­lag­inu. En auk held­ur trygg­ir hún líka að við séum öll virk­ir þátt­tak­end­ur í sama sam­fé­lagi sem er ein­mitt for­senda þess að lýðræðið dafni. Þess vegna er hún ein af und­ir­stöðum lýðræðis­ins og brýt­ur niður múra. Trygg­ir að við eig­um sam­fé­lagið sam­an.

Að vinna með ólíku fólki

Önnur leið til að hafna þess­um múr­um er að leyfa sér að vinna með þeim sem eru manni ósam­mála. Reglu­legt sam­ráð stjórn­valda og aðila vinnu­markaðar­ins hef­ur meðal ann­ars snú­ist um að auka skiln­ing á milli þeirra sem sitja við borðið. Nú þegar hef­ur það sam­tal skilað sér í bein­hörðum aðgerðum sem sýna að stjórn­völd vilja koma til móts við verka­lýðshreyf­ing­una, til dæm­is með því að hækka barna­bæt­ur og fjölga þeim sem eiga rétt á þeim um 2.200 á næsta ári sem er risa­skref í að styrkja barna­bóta­kerfið, og til móts við at­vinnu­rek­end­ur með því að lækka trygg­inga­gjaldið sem styður fyrst og fremst við lít­il og meðal­stór fyr­ir­tæki. Á kom­andi ári er svo fyr­ir­hugað að ljúka vinnu við end­ur­skoðun tekju­skatt­s­kerf­is­ins sem á að tryggja sann­gjarn­ara skatt­kerfi og auk­inn jöfnuð.

Áskor­an­ir framtíðar­inn­ar munu kalla á að ólíkt fólk geti unnið sam­an. Tækni­bylt­ing­in sem stend­ur yfir mun kalla á breyt­ing­ar á vinnu­markaði, aukna áherslu á rann­sókn­ir og ný­sköp­un og fjöl­breytt­ari stoðir und­ir efna­hags- og at­vinnu­líf framtíðar­inn­ar. Lofts­lags­breyt­ing­ar munu kalla á sam­stillta vinnu þar sem efna­hags­stjórn þarf að styðja við græn­ar lausn­ir. Íslend­ing­ar munu þurfa að setja sér framtíðar­sýn um mat­væla­fram­leiðslu sem miðar að því að ís­lenskt sam­fé­lag geti orðið sjálf­bær­ara en nú er um mat­væli með það að mark­miði að draga úr kol­efn­is­fót­spori mat­væla­fram­leiðslu, tryggja mat­væla- og fæðuör­yggi og efla lýðheilsu.

Ein helsta gagn­rýni sem höfð hef­ur verið uppi á þá rík­is­stjórn sem nú sit­ur hef­ur ekki snú­ist um verk henn­ar held­ur að hún hafi yf­ir­leitt verið mynduð og að ólík­ir flokk­ar hafi náð sam­an um stjórn lands­ins.

En mín reynsla er sú að það að vinna með þeim sem eru manni ósam­mála geri mann stærri. Stjórn­mála­menn með sundr­andi orðræðu sem miðar að því að skipa fólki í hópa og hengja á þá já­kvæða og nei­kvæða merk­miða allt eft­ir því hvað þjón­ar þeirra hags­mun­um eru stjórn­mála­menn sem vilja byggja múra. Mark­mið þeirra er gjarn­an að sundra og grafa und­an þeim lýðræðis­legu gild­um sem hafa tryggt stór­stíg­ar fram­far­ir í mann­rétt­inda­mál­um, hag­sæld og ör­yggi.

Sjald­an hef­ur það því verið mik­il­væg­ara að sýna fram á að það er hægt að taka til­lit til ólíkra sjón­ar­miða, miðla mál­um og vinna sam­hent að sam­eig­in­leg­um mark­miðum, þvert á flokka, sam­fé­lag­inu öllu til heilla. Þannig tryggj­um við sam­fé­lag fyr­ir okk­ur öll,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.