Ásmundur nýr varaforseti: Kem úr fiski og sveit og vill aukin afköst þingnefnda

Ásmundur Friðriksson þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var í gær kjörinn nýr varaforseti Alþingis og tekur því sæti í forsætisnefnd. Diljá Mist Einarsdóttir víkur úr forsætisnefnd og er þess í stað orðin formaður utanríkismálanefndar.

„Ég vil byrja á því að þakka það traust sem mér var sýnt með því að kjósa mig í forsætisnefnd fyrir þingið. Ég hef mjög mikinn áhuga á því að láta gott af mér leiða þar eins og í öðrum góðum nefndum sem ég ætla að starfa í í þinginu í vetur. Ég hef alla tíð verið mjög áhugasamur um vöxt og viðgang þingsins og að hér gangi málin vel fyrir sig. Ég kem úr fiski og úr sveit og þar eru mælikvarðarnir yfirleitt hvað maður getur heyjað mikið á hverjum degi eða dregið marga fiska úr sjó, þannig að maður sér afköstin,“ sagði Ásmundur við upphaf þingfundar í dag.

Benti hann á að bæta megi vinnubrögð og afköst í þinginu og þingnefndum og horfa til annarra landa í þeim efnum. „Í skoska þinginu eru mál tekin mjög föstum tökum í nefndum og þar er kappkostað, og ég hef þá skoðun að við eigum að gera það líka, að klára sem flest mál í þinginu, að mál sem þingmenn leggja fram komi til atkvæða í þingsal, að það sé í raun hin eina rétta leið sem hvert þingmál getur farið. Þingmenn, starfsmenn þingflokka og þingið leggja mikla vinnu í þessi mál og það er ekki hægt að þessi mál brenni inni í einhverjum skúffum og komist aldrei til umræðu. Þess vegna þurfa mál auðvitað að vera vel undirbúin og vera þannig að þau segi nákvæmlega hvað menn vilja og hvaðan peningurinn eigi að koma.

Í skoska þinginu sitja 120 þingmenn. Þar t.d. ákveða nefndirnar sem afgreiða frá sér mál hvað hvert þingmál fær langan tíma til umræðu í þingsal. Það er það sem tefur þingið hjá okkur langmest, langar umræður í þingsal og kannski ekki oft mjög nauðsynlegar. Ég held að það sé gott markmið hjá mér að stefna að því að vinna vel fyrir þingið, vinna að því að þingið gangi eins og vel smurð vél og klári þau mál sem hingað koma með atkvæðagreiðslu í þinginu. Það vill fólkið í landinu og þannig eigum við að vinna,“ sagði hann ennfremur.