Bandaríkin og Ísrael ganga formlega úr UNESCO

Bandaríkin og Ísrael sögðu skilið við UNESCO, Mennta- vísinda- og menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, 31. desember 2018. Ríkin kynntu úrsögn sína árið 2017. Ísrael hefur átt þar aðild frá 1949 en Bandaríkin hafa áður rofið aðild sína að UNESCO tímabundið. (Íslensk stjórnvöld stefna að setu í framkvæmdastjórn stofnunarinnar og berjast nú fyrir að ná kjöri í hana.)

Bandaríkjastjórn ákvað úrsögn sína að þessu sinni til að sýna Ísraelum stuðning í verki. Hún sakar UNESCO um að beita Ísraela hlutdrægni og „kerfisbundinni mismunun“ auk þess sem UNESCO sé notað „til að umskrifa söguna af þeim sem hata þjóð Gyðinga og Ísraelsríki,“ sagði talsmaður utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna sunnudaginn 30. desember.

UNESCO er best þekkt fyrir heimsminjaskrá sína. (Þingvellir og Surtsey eru á henni. Árið 2009 setti UNESCO handritasafn Árna Magnússonar á sérstaka varðveisluskrá sína, minni heimsins.) Þá vill UNESCO stuðla að frelsi fjölmiðla, menntun kvenna og berjast gegn öfgahyggju og gyðingahatri. Í Ísrael eru níu staðir á heimsminjaskrá UNESCO.

Brotthvarf Ísraela úr UNESCO breytir engu um skráningu heimsminja í landi þeirra. Umsýsla er í höndum stjórnenda á hverjum stað auk þess sem Ísrael verður áfram aðili að samningnum um heimsminjar.

Sérfræðingar í Ísrael sem unnið hafa að því að fá staði þar skráða sem heimsminjar segja að það sé ekki UNESCO sem beiti sér gegn Ísraelum heldur aðildarríkin þegar að því komi að greiða atkvæði á pólitískum grunni um skrásetningu einstakra staða eða mannvirkja. Úrsögnin bitni ekki á neinum öðrum en Ísraelum sjálfum.

UNESCO varð fyrst stofnana Sameinuðu þjóðanna (SÞ) til að veita Palestínu fulla aðild. Þetta gerðist árið 2011 og þá hætti Bandaríkjastjórn undir forystu Baracks Obama að greiða árgjald sitt til stofnunarinnar, en það nam 22% af fjárhagsáætlun hennar. Bandarísk lög mæla fyrir um að Bandaríkjastjórn leggi ekki fé til þeirra stofnana SÞ sem viðurkenna Palestínu sem aðildarríki. Ísraelar hættu einnig að greiða fé til UNESCO.

Samskiptin milli Ísraela og UNESCO versnuðu enn árið 2016 eftir að samþykkt var ályktun á vettvangi stofnunarinnar sem ísraelskir embættismenn sögðu að virti að vettugi tengsl Gyðingatrúar við helga staði í Jerúsalem. Þar var meðal annars vísað til Musterishæðarinnar, Haram al-Sharif/Temple Mount, á arabísku og ensku en ekki á hebresku. „Að segja að Ísrael sé án tengsla við Musterishæðina er álíka og að segja að Kína sé án tengsla við Kínamúrinn eða Egyptaland við pýramídana,“ sagði Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, þegar þetta gerðist. Hann taldi UNESCO hafa enn gengið á svig við lög með þessu. Á vettvangi UNESCO hefur einnig verið ályktað um Ísrael sem hernámsríki og gegn aðgerðum Ísraela á yfirráðasvæðum Palestínumanna.

UNESCO ögraði Ísraelum enn á ný árið 2017 með því lýsa gamla bæjarhlutann í Hebron/al-Khalil með gröf spámannanna sem Gyðingar kalla Machpela sem heimsminjum Palestínumanna án þess að nefna Gyðinga eða Ísrael. Þarna er heilagur hellir sem talinn er gröf Abrahams, spámanns Gyðinga. Þar hafa múslimar reist Ibrahimi moskuna, hún er tvískipt með tveimur inngöngum er annar fyrir múslima en hinn fyrir Gyðinga sem eiga þar bænahús.

Eins og áður sagði ákváðu Bandaríkjamenn að sýna Ísraelum stuðning í verki með úrsögn úr UNESCO. Bandaríkjamenn yfirgáfu UNESCO fyrst árið 1984 í forsetatíð Ronalds Reagans og gengu aftur inn í stofnunina árið 2003 í forsetatíð George W. Bush til að „leggja áherslu á gildi alþjóðasamvinnu“ þegar hafinn var hernaður undir bandarískri forystu á hendur Írökum.

Frönsk kona, Audrey Azoulay, varð forstjóri UNESCO í nóvember 2017. Henni tókst að róa öldur vegna Ísraela á árinu 2018 og það var jafnvel stofnað til sáttafunda í von um að Ísraelar yrðu um kyrrt. Orðalag á ályktunum sem samþykktar eru annað hvort ár um Jerúsalem var mildað. Carmel Shama Hacohen, þáverandi sendiherra Ísraels gagnvart UNESCO, talaði um „nýjan anda“ og gaf til kynna að hugsanlega yrðu tafir á brottför lands síns. Þetta dugði þó ekki til að hafa áhrif á Netanyahu. Hann hafnaði í september 2018 boði um að sitja UNESCO-ráðstefnu gegn gyðingahatri í tengslum við allsherjarþing SÞ. „Þegar og ef að því kemur að UNESCO fellur frá hlutdrægni sinni í garð Ísraels, fellur frá afneitun á sögunni og tekur upp málstað sannleikans verður heiður fyrir Ísrael að ganga inn að nýju,“ sagði forsætisráðherrann.

Heimild: DW. Tekið af vardberg.is, birt með leyfi.