Bandarísk stjórnvöld hafa vaxandi áhyggjur af mannfalli óbreyttra borgara í stríðsaðgerðum Ísraelsmanna á Gaza-svæðinu og hafa kallað eftir skýringum á sprengjuárásum á Jabalia-flóttamannabúðirnar og hvort allra leiða hefur verið leitað til að forða saklausum almenningi frá manntjóni, að því er bandaríska vefritið Politico greinir frá.
Stjórnvöld í Washington eru helsti bandamaður Ísraels og þau beita sér nú fyrir mannúðarhléi fyrir botni Miðjarðarhafs, en viðurkenna um leið rétt Ísraelshers til þess að gera allt til að uppræta hryðjuverkasamtökin Hamas sem báru ábyrgð á voðalegum árásum á Ísrael á dögunum sem hleyptu öllu í bál og brand á svæðinu.
Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sótti Ísrael heim í gær og hvatti þar til þess að alþjóðalaga væri gætt og að hlé væri gert á árásum til þess að tryggja flutning á hjálpargögnum og vistum inn á Gaza og brottflutning fólks af svæðinu. Sagðist hann hafa gefið Netanyahu forsætisráðherra þau ráð að reyna með öllum hætti að takmarka mannfall óbreyttra borgara.
Ísraelsmenn hafa hafnað slíkum beiðnum meðan fjöldi gísla er enn í haldi Hamas á svæðinu, en samtökin rændu yfir hundrað óbreyttum borgurum í árásunum þann 7. október sl.
Bandaríkin hafa hvatt Ísraelsmenn til að vera nákvæmari í varnaraðgerðum sínum í stað hefðbundinna loftárása sem fela í sér gífurlegan eyðileggingarmátt. Fjölmiðlar hafa greint frá því að bandarískir drónar hafi flogið yfir svæðinu og er talið að Bandaríkjamenn vilji með því aðstoða Ísraelsmenn við leit að mögulegum felustöðum þar sem gíslum er haldið.
Blinken viðurkenndi hreinskilnislega að beiðnum hans hafi verið kurteislega hafnað en ákveðið og staðan á svæðinu væri gífurlega viðkvæm.
Talið er að um 1.400 manns hafi fallið í árás Hamas samtakanna, mest almennir borgarar. Gagnárásir Ísraelsmanna hafa valdið gífurlegu manntjóni, eða yfir 9.000 manns og eins og jafnan í stríðsátökum verða almennir borgarar mest fyrir barðinu á stríðstólum, ekki síst á Gaza þar sem Hamas-samtökin fela stríðsmenn sína innan um íbúðabyggð og skeyta lítt um afleiðingarnar.