Bandaríski flugherinn mætir með F-16 þotur til varnaræfinga og gæslu

Hinar víðfrægu F-16 herþotur eru væntanlegar til landsins. / Bandaríski flugherinn

Von er á bandarískri flugsveit til landsins á morgun til að sinna loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins við Ísland. Flugsveitin kemur til landsins frá Þýskalandi, með fjórar F-16 herþotur og 120 liðsmenn.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu. Sveitin tekur þátt í verkefninu ásamt starfsmönnum stjórnstöðva Atlantshafsbandalagsins í Udem í Þýskalandi og á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

Með fyrirvara um veður, er gert ráð fyrir aðflugsæfingum á varaflugvöllum á Akureyri og Egilsstöðum á tímabilinu 21. til 27. október.

Framkvæmd verkefnisins verður með sama fyrirkomulagi og undanfarin ár og í samræmi við loftrýmisgæsluáætlun Atlantshafsbandalagsins fyrir Ísland.

Flugsveitin kemur til með að hafa aðsetur á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli ásamt flugsveitum aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins sem sinna kafbátaeftirliti úti fyrir ströndum Íslands.

Í umboði utanríkisráðuneytisins, annast varnarmálasvið Landhelgisgæslu Íslands framkvæmd verkefnisins í samstarfi við Isavia.

Þá er ráðgert að loftrýmisgæslunni ljúki um miðjan nóvembermánuð.