Bein stólaskipti: Bjarni utanríkisráðherra og Þórdís fjármála- og efnahagsráðherra

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins hefur bein stólaskipti við formann flokksins, Bjarna Benediktsson sem verður nýr utanríkisráðherra. Þetta var kynnt á blaðamannafundi forystumanna stjórnarflokkanna nú rétt í þessu, en Bjarni sagði af sér sem fjármála- og efnahagsráðherra sl. þriðjudag.

Í máli forystumannanna þriggja var rætt um mikilvæg verkefni framundan og að þau teldi mikilvægt að halda áfram samstarfinu, nú væri að hefjast seinni hálfleikur seinna kjörtímabils samstarfsins.

Katrín ítrekaði í viðtali við RÚV eftir blaðamannafundinn, að það hafi verið rétt ákvörðun hjá Bjarna að hætta sem fjármálaráðherra og axla ábyrgð. Hann sé hins vegar enn formaður Sjálfstæðisflokksins og því sé eðlilegt og rétt að hann haldi áfram sem ráðherra.