„Það blasir við að það er þingmeirihluti fyrir því að rjúfa þá kyrrstöðu sem við okkur blasir í orkumálum. Hann er bara ekki innan ríkisstjórnarinnar,“ segir Bergþór Ólason, formaður þingflokks Miðflokksins, í færslu þar sem hann deilir frétt Viljans um bombu Jóns Gunnarssonar fv. ráðherra á Bylgjunni í morgun.
„Eins og Jón Gunnarsson sagði í viðtalinu á Bylgjunni, þá eru engar líkur á að hægt sé að komast úr sporunum í núverandi stjórnarsamstarfi, þar sem pólitískur armur Landverndar, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, virðist hafa algert neitunarvald.
Á meðan þetta er staðan eru lögð fram neyðarlög til að tryggja að það kvikni á ljósunum á heimilum landsins. Það er galin staða að vera í.
Brettum upp ermar og komum orkuöflunar verkefnum af stað. Nærtækast er að setja sérlög um tiltekna virkjanakosti, með sama hætti og gert var áður en þrautaganga rammaáætlunarferlisins hófst,“ segir hann.