Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mun sækja leiðtogafund Norðurlandanna og Joe Biden Bandaríkjaforseta í Helsinki 13. júlí nk. Fundurinn verður haldinn í kjölfar leiðtogafundar Atlantshafsbandalagsins í Vilníus 11. – 12. júlí.
Á fundinum verður m.a. rætt um samstarf Norðurlandanna og Bandaríkjanna á sviði öryggismála, umhverfismála og tækniþróunar. Um þriðja leiðtogafund Norðurlandanna og Bandaríkjanna er að ræða en fyrri fundir voru haldnir 2013 í Stokkhólmi og 2016 í Washington.
Sauli Niinistö, forseti Finnlands, er gestgjafi fundarins. Auk Sauli Niinistö, Katrínar Jakobsdóttur og Joe Biden munu Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, og Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, taka þátt í fundinum.