Bjarni lét klappa sérstaklega fyrir Jóni og Guðrúnu: „Við stöndum öll með ykkur“

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins sagði á flokksráðsfundi í dag að varla væru til betri meðmæli með nokkrum ráðherra, en að Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, væri óánægð með hann. Vísaði hann þar til gagnrýni á störf Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra undanfarna daga vegna umræðna um hælisleitendur.

„Ég sé það í fréttum síðustu daga að þingmaðurinn Helga Vala Helgadóttir er mjög óánægð með dómsmálaráðherrann okkar. Ég get vart hugsað mér meiri meðmæli með nokkrum ráðherra. Já, margir sem háværir og fyrirferðarmiklir eru í fjölmiðlum sjá enga þörf fyrir umbætur í útlendingamálum, né að markmið laganna séu virt. Markmið um að hafa stjórn á landamærunum og reglu á því hverjir ávinni sér rétt til búsetu og þjónustu á Íslandi. Þegar við höfum fylgt löngu og allt of kostnaðarsömu ferli til að meta umsóknir um vernd á Íslandi og niðurstaðan er neitun – nú, þá er það niðustaðan. Og hana ber að virða,“ sagði Bjarni.

Í kjölfarið bað formaður Sjálfstæðisflokksins fundarmenn að hylla sérstaklega Jón Gunnarsson og Guðrúnu Hafsteinsdóttur sem gegnt hafa embætti dómsmálaráðherra á kjörtímabilinu fyrir þeirra festu og dug í vandasömum málaflokkum. „Við stöndum öll með ykkur,“ sagði hann.