„Stjórnmálin geta verið sveiflukennd rétt eins og tíðarfarið og umræða um andann á stjórnarheimilinu hefur ekki farið framhjá mér. Ég heyri líka ýmislegt misgáfulegt sem sagt er um flokkinn okkar,“ sagði Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins í setningarræðu á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins sem nú stendur yfir á Hilton Reykjavík Nordica. Metþáttaka er í fundinum eða á fjórða hundrað flokksráðsfulltrúar.
Bjarni vék að verkefnum ríkisstjórnarinnar og sagði að þó afkoma ríkisins fari batnandi megi ekki láta þar við sitja. Það sé verið að reisa nýjan landspítala, stöðugt verið að styrkja heilbrigðiskerfið, sjúkratryggingar og byggja ný hjúkrunarheimili. Löggæslan hafi verið elfd sem og háskólar og stuðningur við nýsköpun hafi skilað miklum árangri.
„Ólíkt vinum okkar í stjórnarandstöðunni lítum við hins vegar ekki á veski landsmanna sem opinn tékka. Nei, við sýnum ábyrgð og forgangsröðum,“ sagði Bjarni. „Þið þekkið öll dæmin úr daglegu lífi, samskipti við fjármálastofnanir hafa gjörbreyst, við rekum flest erinda okkar við bankann í símanum, notum sjálfsafgreiðslu í matvöruverslunum. Það er eðlileg krafa að hið opinbera aðlagist nýjum tímum ekki síður en einkageirinn. Í gær hélt ég blaðamannafund um stöðu ríkisfjármálanna og kynnti þar 17 milljarða hagræðingaraðgerðir á næsta fjárlagaári. Við ætlum að spara í launakostnaði, einfalda kerfið, sameina stofnanir, auka aðhald í ráðuneytum og draga úr nýjum verkefnum,“ sagði hann.
Bjarni sagði einhverja úr stjórnarandstöðunni hafi spurt fyrir hvikið hvort ríkisstjórnin hafi ekki ætlað að vera búin að gera þetta fyrir löngu.
„Svarið við því er að við byrjuðum vissulega fyrir löngu – en við verðum aldrei búin. Það þarf stöðugt að fara fram á aukna framleiðni, gera betur, endurmeta útgjaldaþörfina, forgangsraða, nýta tæknina. Verkefninu er aldrei lokið“
Aldrei farið ein með völd í landinu
„Ég minntist hér áðan á stjórnarsamstarfið. Áður en lengra er haldið vil ég segja, að í sögu Sjálfstæðisflokksins höfum við aldrei farið ein með völd í landinu. Ólafur Thors myndaði ríkisstjórn með Sósíalistum. Alvöru gamaldags moskvu sósíalistum. Þetta stjórnarsamstarf var aldeilis umdeilt, hópur þingmanna flokksins okkar neitaði að styðja stjórnina og hún féll síðar vegna deilunnar um veru bandaríska varnarliðsins hér á landi,“ sagði Bjarni.
Hann sagði Ólaf Thors aldrei hafa hvikað frá grundvallargildum flokksins en metið það sem svo á sínum tíma að rétt væri að efna til þessa stjórnarsamstarfs þjóðinni til heilla – þó hann hafi gert sér fulla grein fyrir því að slíkt stjórn byggði á málamiðlunum.
„Ég rifja þetta upp vegna þess að málamiðlanir eru órjúfanlegur hluti samstarfs í stjórnmálum á Íslandi. Auðvitað viljum við öll vera miklu meiri sjálfstæðismenn. Helst viljum við auðvitað að sjálfstæðisstefnan ráði för í öllum málum sem glímt er við, auðvitað og nema hvað. En gleymum því ekki að samstarfsflokkar okkar vilja sömuleiðis gera miklu meira af sínu, oft þvert á okkar eigin stefnu. Og þegar gengið er of langt í þeim efnum verðum við að sjálfsögðu að bregðast við.
Það er oft þannig að samstarfið getur tekið á. Það getur verið erfitt. Ég heyri jafnvel talað um að það sé orðið þreytt. En þó við verðum stundum þreytt. Þó hlutirnir taki á. Þá gefumst við ekki upp. Það er einfaldlega ekki í boði að gefast bara upp.“
„Við það loforð hyggjumst við standa“
„Sjálfstæðisflokkurinn er sá flokkur sem þjóðin hefur ítrekað og oftast veitt mestan stuðning og flokkurinn því verið í forystu landsmála meira og minna í hartnær hundrað ár. Kjósendur hafa getað gengið að því vísu að Sjálfstæðisflokkurinn byggi yfir þeim pólitíska þroska að ríkisstjórnir sem hann ætti aðild að, hversu ólíkir sem samstarfsflokkarnir væru, létu hagsmuni íslensku þjóðarinnar í bráð og lengd ganga fyrir öllu. Og ólíkt óstjórntækum smáflokkum, sem við þekkjum alltof vel af eigin raun, þá göngum við ekki frá hálfkláruðu verki þótt móti blási. Við mynduðum ríkisstjórn um stöðugleika og við það loforð hyggjumst við standa,“ sagði Bjarni.
Hann sagði að í pólitískri upplausn sé atvinnulífið og velferð alls samfélagsins undir, enda eigi fólkið sem berst harðast fyrir upplausn og glundroða í stjórnmálum það sameiginlegt að skeyta almennt ekkert um atvinnulíf og hagsæld í landinu.
„Ég veit að við sem erum hér saman komin brennum fyrir enn meiri árangri fyrir landið okkar og vitum að Sjálfstæðisflokkurinn þarf að sækja enn meiri stuðning, meiri kraft til að tryggja árangur fyrir landsmenn,“ sagði Bjarni.