Bókun 35: „Ég myndi sjálf sem ráðherra aldrei leggja fram svona mál“

Ætli Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra aftur að leggja fram lagafrumvarp um bókun 35 í EES-samningnum verður það Sjálfstæðisflokknum mjög þungt og mun krefjast þess að þingmenn flokksins, allir sem einn, ekki bara utanríkisraðherrann, setji sig inn í málið og tali fyrir því af sannfæringu, ef menn hafa þá sannfæringu fyrir því.

Þetta sagði Sigríður Á. Andersen fv. dómsmálaráðherra í pallborði í vefútsendingu Sjálfstæðisflokksins að loknum flokksráðsfundi í dag. Hún sat þar fyrir svörum ásamt Óla Birni Kárasyni og Teiti Einarssyni, en spyrill var Svanhildur Hólm Valsdóttir framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.

Bókun 35 er svohljóðandi: „Vegna tilvika þar sem getur komið til árekstra á milli EES-reglna sem komnar eru til framkvæmdar og annarra settra laga, skuldbinda EFTA-ríkin sig til að setja, ef þörf krefur, lagaákvæði þess efnis að EES-reglur gildi í þeim tilvikum.“

Sigríður Á. Andersen sat í hóp sem utanríkisráðherra skipaði til að skrifa frumvarp um bókun 35. Hún hafnar því þó að vera höfundur frumvarpsins. „Það er alls ekki þannig, ég sat í hópi sem utanríkisráðherra skipaði til að semja þetta frumvarp að því efni sem ráðherrann sjálfur valdi,“ sagði hún í umræðuþættinum. „Ráðherrann ber sjálfur eins og ætíð ábyrgð á sínum eigin frumvörpum og ég hef ekki farið í neinar grafgötur með það að mér finnst þetta ekki gott mál, ekki gott þingmál. Það náði ekki fram að ganga á síðasta þingi, eins og ég hafði spáð, og ég myndi sjálf sem ráðherra aldrei leggja fram svona mál,“ bætti Sigríður við.

Sigríður telur frumvarpið um bókun 35 hafa þá ásýnd og sé að efni til ekki í samræmi við íslenska réttarhefð eða lagaheimildir. „Ég er ekki viss um að þetta frumvarp myndi auka réttaröryggi almennings,“ sagði hún og benti á að sumt sem innleitt væri hér á landi á grundvelli EES-samningsins væri til hagsbóta fyrir einstaklinga og fyrirtækja, en annað ekki. Sumt gagnaðist sumum fyrirtækjum en öðrum alls ekki, svo dæmi væru tekin.