Sundabraut var rædd í borgarstjórn Reykjavíkur í dag, að beiðni borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, en fulltrúar flokksins hafa lýst áhyggjum af ítrekuðum töfum á málinu undanliðin ár og áratugi.
„Hugmyndir um Sundabraut komu fyrst til sögunnar löngu áður en ég sjálf fæddist, fyrir nær 50 árum síðan, og því um fremur langa sorgarsögu að ræða“, sagði Hildur Björnsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna í ræðu sinni. Hún rakti söguna frá árinu 1975 til dagsins í dag, og sagði eitt vekja sérstaka eftirtekt. „Hingað til hafa öll þau skref sem stigin hafa verið vegna Sundabrautar, og einhverja þýðingu hafa haft fyrir framganginn – þau hafa verið stigin af ríkinu. Innlegg borgarinnar hefur almennt verið þróttlítið og fyrst og fremst til þess fallið að fækka valkostum og tefja“, sagði Hildur.
Í andsvari við ræðu Hildar kom fram í máli Alexöndru Briem, borgarfulltrúi Pírata, að hennar flokkur væri ekkert sérlega spenntur fyrir Sundabraut. Hildur svaraði því til að málið væri enda augljóst pólitískt vandræðamál fyrir núverandi meirihluta, og raunar síðustu meirihluta í Reykjavík. Það skýrði sennilega ítrekaðar óafturkræfar skipulagsákvarðanir borgarinnar sem komið hafi í veg fyrir áður skilgreinda hagkvæmustu legu brautarinnar.
Yfirgnæfandi stuðningur meðal borgarbúa
Í ræðu sinni vísaði Hildur til könnunar Maskínu sem birt var í febrúar árið 2022, þar sem fram kom yfirgnæfandi stuðningur við framkvæmd Sundabrautar meðal borgarbúa. „Aðeins 6,2% svarenda reyndust andvígir framkvæmdinni – og kom jafnframt í ljós að meðal kjósenda allra flokka reyndust margfalt fleiri fylgjandi Sundabraut en reyndust andvígir henni. Hvernig stendur þá eiginlega á því að borgin hefur um árabil tafið fyrir svo sjálfsagðri framkvæmd sem mikill lýðræðislegur vilji reynist vera fyrir?“, sagði Hildur.
Þá fagnaði hún því sérstaklega að Sundabraut væri fyrirhuguð sem samvinnuverkefni hins opinbera og einkaaðila (PPP). Samvinnuverkefni væru til þess fallin að dreifa áhættu, sem gæti verið talsverð í uppbyggingu og rekstri innviða og myndi öðrum kosti falla eingöngu á skattgreiðendur. Samvinnuleiðin myndi jafnframt veita hinu opinbera aðgang að sérfræðiþekkingu, fjármagni og skilvirkni atvinnulífsins til að stuðla að hagkvæmri uppbygginu.
Hún vísaði loks til félagshagfræðilegrar greiningar á framkvæmdinni sem lögð var fram árið 2022. „Í þeirri greiningu kom fram að í heild gæti ábati notenda af framkvæmdinni numið 216 til 293 milljörðum króna, allt eftir þeirri útfærslu sem valin yrði, brú eða göng. Mesti ábatinn væri vegna styttri ferðatíma, en einnig vegna styttri vegalengda.
Niðurstaða greiningarinnar leiddi jafnframt í ljós, að hvort sem Sundabraut yrði brú eða göng, þá myndi framkvæmdin alltaf fela í sér gríðarlegan samfélagslegan ávinning og er metin samfélagslega hagkvæm sem slík“, sagði Hildur.
„Mestu skipti að Sundabraut komist til framkvæmdar án tafar!“
„Við sjálfstæðismenn fögnum því að af stað sé farin vinna við skipulag Sundabrautar. Við teljum mikilvægt að ganga inní þá vinnu með opinn hug hvað varðar einstakar útfærslur. Ekki síst verður mikilvægt að vinnan eigi sér skilgreindan endapunkt, hún verði skilvirk og unnin af festu“, sagði Hildur.
Hún sagði ólíka kosti þurfa að vega og meta, bæði útfrá kostnaði en jafnframt þáttum sem ekki verði metnir til fjár, svo sem ágangi á græn svæði og lífsgæði íbúa. „Það sem mestu skiptir, og við sjálfstæðismenn leggjum megin áherslu á, er að Sundabraut komist til framkvæmda án tafar“, sagði Hildur ennfremur.