Börn í Reykjavík munu læra forritun: Viljum vera leiðandi í 4. iðnbyltingunni

Katrín Atladóttir borgarfulltrúi og hugbúnaðarverkfræðingur.

Borgarstjórn samþykkti á fundi sínum síðdegis tillögu Katrínar Atladóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og hugbúnaðarverkfræðings, um að auka framboð á forritunarnámi og kennslu í skóla- og frístundastarfi borgarinnar í kjölfar breytingatillögu meirihlutans.

Sérstök áhersla verði lögð á að veita kennurum í grunnskólum Reykjavíkur rík tækifæri til starfsþróunar í forritunarkennslu í tengslum við innleiðingu á menntastefnu Reykjavíkur.

Katrín sagði í ræðu sinni að tæknin væri orðin samofin öllu í okkar daglega lífi og muni verða það í enn frekara mæli eftir því sem fram líður.

„Í dag eru flest börn aðeins neytendur á tækni en skapa ekkert sjálf. Því má í raun segja þau séu læs en ekki skrifandi í tæknimálum. Til að geta tjáð sig við tölvur þarf að læra tungumál þeirra. Forritun er eina tungumálið sem tölvur tala,“ sagði Katrín í ræðu sinni á borgarstjórnarfundi og bætti við að margt hefur verið gert til að reyna að stemma stigu við þessari þróun.

„Flest lönd í Evrópu hafa sett forritun á aðalnámskrá, frumkvöðlar eins og áðurnefndur Steve Wozniak eru að búa til tæki og tól fyrir börn til að kenna þeim forritun. Apple búðir í Bandaríkjunum bjóða upp á ókeypis forritunarkennslu fyrir börn og einnig fyrir kennara sem langar að kenna forritun. Þá má nefna Hour of code átakið sem felst í því að fá alla til að forrita í einn klukkutíma eftir leiðbeiningum sem eru til á 45 tungumálum,“ sagði hún.

Katrín benti einnig á að í Reykjavík er til öflug grasrót af tæknisinnuðum kennurum sem hafi „mikinn áhuga á að kenna forritun og upplýsingatækni og eru að nýta sér það við kennslu. Það þarf að efla þessa kennara, gefa þeim þá menntun og tæki og tól sem þeir þurfa, svo þeir geti þá líka vakið áhuga samkennara sinna og miðlað til þeirra þekkingu.“

„Það sem við viljum í raun kenna er forritunarleg hugsun, sem á ensku útleggst computational thinking, og kennir okkur að brjóta niður vandamál í minni auðleysanlegri einingar, að þekkja mynstur í vandamálum og að leysa eitt vandamál í einu. Þannig kennum við börnunum okkar að nálgast vandamál með skapandi og lausnamiðuðum hætti,“ sagði Katrín einnig í ræðu sinni og bætti við: „Forritun þjálfar okkur í þessum þankagangi. Kennd er rökhugsun sem nýtist hvar sem er. Um leið er kennt að skilja samfélagið og hlut tækninnar í því. Skapaður er góður grunnur fyrir framtíðina þar sem stór hluti starfa mun reiða sig á tækni og tæknilæsi,“ sagði hún ennfremur.

Getur þjálfað börn í þrautseigju

Skóla- og frístundasviði verður falið að útfæra tillöguna í samræmi við áherslur menntastefnunnar á læsi sem einn af grundvallar hæfniþáttum stefnunnar, aukið vægi náttúruvísinda og stærðfræði og loks heildstæða innleiðingu stafrænnar tækni.

Katrín benti enn fremur á að forritun geti þjálfað börn í þrautseigju.

„Þegar leysa þarf mörg lítil vandamál og koma með hverja lausnina á fætur annarri þarf að standast mótlæti þegar lausnin virkar ekki. Þegar kemur að forritun má nefnilega mistakast, maður prufar bara aftur. Það gefur líka margfalt til baka þegar þeim tekst loksins að finna réttu lausnina. Það eru ekkert endilega margir aðrir staðir í menntakerfinu sem gefa ráðrúm fyrir mistök.“

Katrín bendir á að í framtíðinni muni koma fram á sjónarsviðið fjölmörg ný störf sem þekkjast ekki dag.

„Talið er að 65% starfa framtíðarinnar séu ekki til í dag. Störf framtíðarinnar munu reiða sig á tæknilæsi í meiri mæli. Árið 2020 mun vanta 800 þúsund manns með tæknimenntun í Evrópu. Stærsti hluti tæknimenntaðra eru karlar. Við viljum vera leiðandi í 4. iðnbyltingunni. Við verðum að byrja að undirbúa börnin.“

Katrín Atladóttir er hugbúnaðarverkfræðingur og tölvunarfræðingur. Hún hefur 13 ára starfsreynslu í forritun en hún starfaði m.a. fyrir CCP áður en hún tók sæti í borgarstjórn Reykjavíkur.