Botnar ekki í því sem fram fór á Alþingi

„Ekki dettur mér í hug að gera lítið úr alvarleika náttúruhamfaranna við Grindavík, stöðu þess fólks sem hefur orðið að flýja heimili sín né nauðsyn þess að bregðast við þeim aðstæðum sem upp eru komnar þar af festu og myndugleik. Á hinn bóginn botna ég ekki alveg í því hvað fór fram á Alþingi í gær,“ segir Gunnlaugur A. Júlíusson, fv. sviðsstjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og fv. sveitarstjóri í Raufarhöfn og Borgarbyggð.

„Boðað var til sérstaks fundar um að keyra í gegnum Alþingi frumvarp með forgangshraði um vernd mikilvægra innviða sem felur meðal annars í sér að leggja sérstakan skatt á húseigendur vegna málsins.

Skatturinn á að færa ríkinu um 1.0 milljarð í tekjur á ári næstu þrjú árin. Í fyrsta lagi er líklegt að skatturinn verði aldrei lagður af. Sagan kennir okkur það. Í öðru lagi ekki að hefja innheimtu skattsins fyrr en eftir næstu áramót!! Hvað lá þá svona voðalega á?

Í þriðja lagi er einn milljarður smáupphæð í hinu stóra samhengi. Hann á náttúrulega að vera tiltækur í þeim sjóðum sem hafa verið byggðir upp gegnum árin til að bregðast við viðlíka aðstæðum.

Svona til að setja hlutina í samhengi þá var bílaleigum landsins færður einn milljarður úr ríkissjóði fyrr á þessu ári, bara si svona. Fleiri hundruð milljónir hafa verið færðar í Orkusjóð til að niðurgreiða innkaup á steypubíl, vörubíl og fólksflutningabílum sem ganga fyrir rafmagni.

Fjórir milljarðar voru sendir til Úkraínu inn á einhvern reikning.

Hinn sérkennilegi fundur Evrópuráðsins, sem haldinn var hérlendis sl. vor, kostaði íslenska ríkið (les skattgreiðendur) 3 milljarða +/-.

Meðan nokkrar erlendar þjóðir slógu sér saman um að fjármagna kaup á færanlegu sjúkrahúsi sem sent skyldi til Úkraínu þá keypti Ísland eitt slíkt upp á eigin spítur (stórasta land í heimi hvað). Hið færanlega sjúkrahús kostar um einn milljarð.

Kostnaður vegna lítt hefts straums svokallaðra hælisleitenda til Íslands er að öllum líkindum nálægt tuttugu milljörðum árlega.

Ríkið keypti húsnæði fyrir tvö ráðuneyti í hinu nýja Landsbankahúsi við hlið Hörpu þrátt fyrir að þau hin sömu ráðuneyti hafi verið í ágætu húsnæði fyrir. Húsnæðið kostaði eitt og sér um sjö milljarða en tilbúið til notkunar gæti það farið í 12-15 milljarða.

Kostnaður við kaup og endurinnréttingu Hótel Sögu gæti nálgast 20 milljarða.

Undanfarin ár hefur verið varið um 10 milljörðum árlega í niðurgreiðslu á rafbílum, tengitvinnbílum og hvað þeir heita. Fyrir liggja hugmyndir um að á næstu fjórum árum eigi að verja 30 milljörðum samtals í niðurgreiðslu slíkra bíla.

Nýtt fimm hæða skrifstofuhús fyrir alþingismenn og starfsfólk Alþingis er sagt geta kostað allt að 10-12 milljarða.

Svo er haldinn neyðarfundur á Alþingi vegna sérstakrar skattlagningar til að fjármagna útgjöld upp á einn milljarð.

Hvað skyldi koma næst?“