„Atburðarás síðustu um 24 mánaða hefur gert það að verkum að afkomubrestur er í flestum greinum í landbúnaði. Á árunum 2022 og 2023 er fyrirséð að bændur greiði 8.600 milljónir með framleiðslu sinni úr eigin vasa. Og er þá ekki gert ráð fyrir því að bændur greiði sér lágmarkslaun, hvað þá laun í samræmi við ákvæði búvörulaga,“ segir í bréfi Bændasamtaka Íslands til félagsmanna sinna.
Þar segir að augljóst sé að við slíka stöðu verði ekki búið áfram.
„Síðustu vikur og mánuði hefur starfsfólk og stjórn Bændasamtakanna ásamt öllum þeim fjölmörgu sem sinna trúnaðarstörfum fyrir samtökin unnið að því að greina stöðuna og leita lausna.
Þann 12. október sl. ræddu forsvarsmenn samtakanna við atvinnuveganefnd Alþingis þar sem staðan var kynnt. Þá var boðað til neyðarfundar með matvæla- og fjármálaráðherrum þann 19. október sl. sem síðan var fylgt eftir á fundi með fjárlaganefnd Alþingis daginn eftir.
Bændasamtökin hafa á þessum fundum lagt áherslu á að sú staða sem uppi er kemur til vegna utanaðkomandi aðstæðna, s.s. Covid faraldursins og stríðsins í Úkraínu, sem hafa leitt af sér ófyrirséðar aðfangahækkanir. Gríðarlegar hækkanir stýrivaxta hafa síðan veikt stöðu bænda enn frekar.
Bændur hafa sannanlega fjárfest í rekstri búa sinna með tilheyrandi lántökum, sem bíta hart í núverandi árferði, en slíkar fjárfestingar eru að stærstum hluta til komnar vegna mikillar hagræðingarkröfu á greinina sem og auknum kvöðum sem leiða beint af lögum svo sem er varða velferð búfjár.
Fyrir liggur að á árunum 2022 og 2023 hefur 15,9 milljörðum verið velt út í verðlag með hækkun afurðaverðs, sem þó dugir ekki til að mæta aðfangahækkunum. Þrátt fyrir hækkun afurðaverðs er enn bil sem þarf að brúa. Bændasamtökin hafa metið það bil á 9-12 milljarða sem tekur mið af því að bændur geti greitt rekstrarkostnað og njóti hið minnsta lágmarkslauna.
Á nefndarmönnum í fjárlaganefnd mátti heyra að þar væri skilningur á stöðunni og þeirri lagaskyldu sem hvílir á stjórnvöldum að bregðast við stöðunni. Þá tóku nefndarmenn undir að hér væri um bráðavanda að ræða sem þyldi enga bið.
Staðan er einfaldlega þannig að finna þarf lausn á næstu vikum en ekki mánuðum,“ segir þar ennfremur.
Umsögn Bændasamtakanna vegna fjárlaga 2024, ásamt kröfugerð BÍ: HÉR
Kynning á stöðu landbúnaðarins, kynnt fyrir atvinnuveganefnd, fjárlaganefnd og ráðherrum: HÉR