„Klausturmálið svokallaða hefur varpað dimmum skugga á síðasta mánuð ársins. Það kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Vonbrigðin voru mikil að uppgötva hvílík óheilindi og undirferli geta leynst með kjörnum fulltrúum sem maður hefur þrátt fyrir allt bæði treyst og virt eins og aðra meðborgara sína,“ segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Inga segir í grein sem hún ritar í áramótablað Morgunblaðsins, sem kom út í morgun, að þeir þingmenn sem þarna áttu hlut að máli séu öll í hópi vinnufélaga á Alþingi Íslendinga.
„Ég er sorgmædd yfir þessu ömurlega máli. Það hefur vakið mig til umhugsunar um það á hvaða vegferð íslensk stjórnmál eru.,“ segir hún.
„Ég hef líka velt því fyrir mér hvort þátttaka í stjórnmálum sé mannskemmandi fyrir fólk? Breytast manneskjur til hins verra við að taka þátt í störfum sem kjörnir fulltrúar? Dregur samfélagshlutverk stjórnmálamannsins slæma þætti fram í persónuleika einstaklingsins?
Ég á ekki svör við þessum spurningum. Hitt veit ég þó að mér hugnast ekki slík stjórnmál. Ég mun aldrei vera þátttakandi í slíkum dansi og boðið var upp á á barnum Klaustri eitt síðkvöld í endaðan nóvember,“ segir Inga Sæland.