Dómsmálaráðherra minnir á að Ísland hafi ekki opin landamæri

Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra.

„Í fjölmiðlum hefur verið fjallað um einstaklinga sem fá ekki lengur þjónustu í boði yfirvalda þar sem þeir er á landinu í ólögmætri dvöl og neita samvinnu við íslensk stjórnvöld vegna brottfarar frá landinu. Þessir einstaklingar hafa fengið niðurstöðu sinna mála eftir yfirferð á tveimur stjórnsýslustigum og í sumum tilfellum hafa málin farið fyrir héraðsdóm þar sem niðurstaða kærunefndar var staðfest.

Niðurstaða stjórnvalda sem fengin var eftir efnislega skoðun á aðstæðum viðkomandi er sú að ekki hefur verið fallist á röksemdir og staðhæfingar viðkomandi einstaklinga þess efnis að þeim stafi ógn af því að snúa aftur til heimaríkis eða réttmæts dvalarríkis. Málum þeirra er því lokið og þeim ber að yfirgefa landið,“ segir í yfirlýsingu sem dómsmálaráðuneytið hefur birt á vef sínum.

Þar segir að ekki sé hægt að virða að vettugi lögmæta niðurstöðu Útlendingastofnunar, kærunefndar útlendingamála og jafnvel dómstóla en búast jafnframt við því að yfirvöld útvegi húsnæði og veiti fjárhagsaðstoð. Hins vegar fái þeir einstaklingar sem virða lögmæta niðurstöðu stjórnvalda og ganga til samvinnu við yfirvöld þjónustu og aðstoð við að fara til síns heimaríkis eða dvalarríkis.

Í yfirlýsingunni segir jafnframt:

„Varðandi skort á ferðaskilríkjum þá eru það einungis einstaklingarnir sjálfir sem standa í vegi fyrir því að hægt sé að útvega skilríki frá þeirra heimaríki, með aðstoð sendiráða ríkjanna í Evrópu.

Hér fylgja nokkur efnisatriði varðandi málefni fólks sem fær ekki lengur þjónustu í boði yfirvalda þar sem það er á landinu í ólögmætri dvöl.

Ísland er ekki með opin landamæri

Grunnatriðið varðandi flutning fólks til Íslands er að hér eru ekki opin landamæri. Með EES-samningi og Schengen-samstarfinu hefur fólki í stórum hluta Evrópu verið veitt leyfi til þess að ferðast hingað, dvelja hér og í ákveðnum tilfellum að starfa hérlendis. Einstaklingar utan þeirra svæða sem vilja setjast að hér á landi þurfa að uppfylla skilyrði til útgáfu dvalarleyfis en um slíkar umsóknir gilda skýrar reglur. Undantekning frá þessu er sú að ef fólk er sannanlega í hættu vegna ofsókna eða á jafnvel yfir höfði sér pyndingar eða dauða í heimalandinu, þá getur það fengið hér alþjóðlega vernd. Ef umsókn þeirra er hins vegar hafnað á tveimur stjórnsýslustigum ber fólki að yfirgefa landið. Ef fólk unir ekki þeirri niðurstöðu telst það vera hér í ólögmætri dvöl.

Ekki í boði að „leyfa þeim bara að vera“.

Alþjóðlegt verndarkerfi er til þess ætlað að vernda þá sem eiga á hættu ofsóknir, pyndingar eða dauða. Fleiri sækja um slíka vernd en eiga rétt á og því verða alltaf einhverjir sem fá neitun og er vísað frá landinu. Ef fólk fær hér sjálfkrafa dvöl með því einu að neita að hlíta lögmætum niðurstöðum stjórnvalda og neita að fara að fyrirmælum lögreglu eru íslensk lög um landamæri og skilyrði fyrir komu fólks hingað til lands að engu orðin.

Ólögmæt dvöl – ekki „umborin dvöl“

Þeir sem ekki hverfa af landi brott þegar endanleg synjun liggur fyrir og sýna ekki samstarfsvilja við yfirvöld, teljast vera hér í ólögmætri dvöl. Í fjölmiðlum er ranglega talað um að þetta fólk sé í „umborinni dvöl“ á Íslandi (e. tolerated stay). Þegar útlendingur kemur hingað til lands og sækir um alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi telst viðkomandi jafnan í „umborinni dvöl“ á meðan mál hans er til meðferðar. Einstaklingur sem hlotið hefur synjun á umsókn en neitar að yfirgefa landið er aftur á móti í ólögmætri dvöl, enda hefur viðkomandi ekki leyfi til að dveljast hér og ber lögum samkvæmt að yfirgefa landið. Röng notkun hugtaksins gefur villandi til kynna að dvöl umræddra útlendinga hér á landi sé að einhverju leyti lögleg eða í „hálfgerðu lagalegu tómarúmi“, en svo er alls ekki.

Málsmeðferð stjórnvalda á tveimur stjórnsýslustigum

Þeir sem þurft hafa að sæta þjónustusviptingu eiga það sammerkt að hafa sótt um alþjóðlega vernd hér á landi en fengið synjun hjá Útlendingastofnun og oftast kærunefnd útlendingamála. Við meðferð málsins njóta umsækjendur aðstoðar lögfræðings þeim að kostnaðarlausu. Þannig hafa stjórnvöld tekið afstöðu til þess að viðkomandi einstaklingum er óhætt að snúa aftur til síns heima eða réttmæts dvalarríkis. Niðurstöður stjórnvalda eru jafnan ítarlega rökstuddar og byggja bæði á almennu mati á aðstæðum í heimaríki sem og einstaklingsbundnu mati á aðstæðum hvers og eins umsækjanda. Þeir útlendingar, sem fá endanlega synjun á stjórnsýslustigi á umsókn um alþjóðlega vernd, geta síðan skotið úrlausninni til dómstóla.

Þegar verið er að ræða um búsetuúrræði eða þjónustu við þá einstaklinga sem sýna engan samstarfsvilja er verið að virða að vettugi málsmeðferð stjórnvalda og þá niðurstöðu að útlendingarnir hafa ekki rétt til dvalar hér á landi og ber lögum samkvæmt að yfirgefa landið.

Á valdi einstaklinganna að höggva á hnútinn með sjálfviljugri heimför

Fólkið sem um ræðir er ekki í réttaróvissu, eða í „hálfgerðu lagalegu tómarúmi“, þótt íslensk stjórnvöld geti ekki framkvæmt þvingaðan brottflutning þeirra úr landi. Í nær öllum tilvikum geta umræddir útlendingar farið sjálfviljugir til síns heimaríkis. Við sjálfviljuga heimför getur útlendingur fengið margvíslega aðstoð frá íslenskum stjórnvöldum, svo sem með greiðslu fargjalds og farareyri. Þá geta styrkir til enduraðlögunar í heimaríki numið allt að 3.000 evrum (um 460.000 kr.) til hvers einstaklings. Áréttað er að afstaða viðkomandi útlendings,um að honum sé ekki fært að snúa sjálfviljugur aftur, er ekki í samræmi við niðurstöðu stjórnvalda og hefur ekki þýðingu hvað varðar lagalegu stöðu þeirra hér á landi.

Til að einstaklingur snúi sjálfviljugur til síns heimaríkis þarf ekki að vera til staðar sérstakur endurviðtökusamningur milli Íslands og viðkomandi ríkis. (Þessi tegund samnings hefur ranglega verið nefnd „framsalssamningur“ í fjölmiðlum en það á eingöngu við um framsal sakamanna.) Ef fólk er samstarfsfúst getur það snúið sjálfviljugt aftur til síns heima og munu íslensk yfirvöld aðstoða við slíkt eftir megni, s.s. með því að aðstoða einstaklinga við að afla ferðaskilríkja frá sendiráði heimaríkis.

Ekki íslensk stjórnvöld sem standa í vegi fyrir öflun ferðaskilríkja

Í fjölmiðlum hefur verið talað um miklar hindranir eða jafnvel að það sé ómögulegt fyrir þennan hóp að afla sér fullnægjandi skilríkja. Ekki fáist ferðaheimildir frá íslenskum stjórnvöldum í þeim tilgangi að ferðast til ríkja þar sem sendiráð heimaríkja þeirra séu staðsett. Í þessu felist mótsögn því fullnægjandi ferðaskilríki séu forsenda þess að flutningur í fylgd lögreglu til viðtöku- eða heimaríkis geti fari fram. Hið rétta er að helsta ástæða þess að flutningi verði ekki viðkomið er skortur á samstarfsvilja útlendings við að útvega ferðaskilríki. Ef samstarfsvilji er fyrir hendi er því jafnan engin fyrirstaða við að fá útgefin ferðaskilríki.

Enginn neyddur til að búa á götunni

Hermt hefur verið í fjölmiðlum að hér gætu orðið hópar heimilislausra vegna nýrra útlendingalaga. Þeim sem sýna vilja til að fara eftir lögum og starfa með yfirvöldum að sjálfviljugri heimför er séð fyrir húsnæði, framfærslu og nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu.“