„Þær kynntu fyrir fundargestum málið í heild sinni og gerðu það mjög vandlega,” segir Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, í samtali við Viljann, sem hefur undanfarna daga reynt að afla upplýsinga um það sem fór fram á fundi sem borgarstjórnarflokkur Pírata hélt um skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um Braggamálið, þann 17. janúar sl.
Óvenjuleg þögn hefur verið um þennan fund. Frá honum var skýrt í aðdragandanum en ekkert hefur spurst af umræðunum sem fóru fram. Af einhverjum ástæðum er engar fregnir, samþykktir eða upptökur af fundinum að finna á opinberum vefsvæðum Pírata og hafa flokksmenn sem og aðrir spurst fyrir um það. Ekkert hefur verið sagt frá fundinum í fjölmiðlum — fyrr en nú.
Þær sem höfðu framsögu á fundi Pírata um braggamálið voru þær Dóra Björt Guðjónsdóttir, forseti borgarstjórnar, Sigurborg Ósk Haraldsdóttur borgarfulltrúi og Alexandra Briem varaborgarfulltrúi.
Þær upplýsingar fengust hjá skrifstofu flokks Pírata að einungis hafi verið um upplýsingafund að ræða og því væru ekki til upptaka eða fundargerð af honum. Aðspurður segir Helgi Hrafn, sem var einn fundargesta, að mætingin hafi verið þokkalega góð en þó ekki húsfyllir. Nægilegt rými hafi því skapast fyrir spurningar og svör.
Ekki vongóður að hægt sé að endurheimta tölvupósta
„Þær fóru yfir hvaða lög hefðu verið brotin og hver ekki og útskýrðu í sambandi við tölvupóstana sem líta út fyrir að hafa verið eytt, að það gætu verið eðlilegar skýringar á því. T.d. hvort þeir hafi yfirleitt verið til. Pláss í tölvupósthólfum starfsmanna sé takmarkað og það er eðlilegt að tiltektir séu gerðar, en þarna vantar eitthvað tímabil,“ segir Helgi Hrafn við Viljann.
Viljinn spurði þá hvort að hann ætti við einhverskonar sjálfvirkar tæmingar en Helgi Hrafn neitaði því. Aðspurður kvaðst hann þó aldrei hafa lent í því sjálfur að þurfa að eyða tölvupóstum handvirkt vegna plássleysis í hólfinu.
Spurður hvort að hann telji einhverjar líkur á að finna leifar af þessum tölvupóstum, jafnvel þó að þeim hafi verið eytt, segist hann ekki vera of vongóður. „Það er allur gangur á því hvernig tölvupóstkerfi eru sett upp, ég þyrfti að vita meira um það til að geta svarað þessu, en kannski væri hægt að grafa þá upp úr öryggisafritum.”
Um fundinn sagði hann: „Þær fóru mjög vel yfir málið, í skýrslunni sést að það var mjög margt sem fór úrskeiðis. Þær sögðu að afar erfitt sé að ná fram breytingum í borgarkerfinu, og mér skilst að þar inni sé afar mikill mótþrói gagnvart breytingum, en eftir að þetta mál hafi komið upp sé talsvert meiri stemming fyrir því innan þess. Núna séu komin tækifæri til að laga það sem áður hafi verið erfitt að laga og nú þarf bara að nýta þau.”
Sú staða ein og sér er nógu slæm
Eitt af því sem fram kemur í skýrslu Innri endurskoðunar (bls. 6) er eftirfarandi:
„Engir skriflegir samningar voru gerðir varðandi verkefnið, að undanskildum leigusamningi við Háskólann í Reykjavík. Ráðgjafar innkaupadeildar var ekki leitað varðandi innkaup til framkvæmdanna og ekki var farið að innkaupareglum borgarinnar. Lög um opinber innkaup voru ekki brotin. Verktakar og aðrir sem unnu verkið voru almennt ráðnir af því þeir voru kunnugir þeim sem stóðu að framkvæmdunum, allflestir handvaldir. Ekki var farið í innkaupaferli né leitað undanþágu frá innkauparáði varðandi það.”
Viljinn spurði Helga Hrafn að lokum hvort að hann teldi að t.d. þetta atriði sýndi fram á spillingu og svaraði hann:
„Ég vil ekki fullyrða að þetta líti út eins og spilling, en það er mjög margt að þessu og þetta má ekki gerast aftur, það eru alveg hreinar línur. Ég vildi að ég gæti fullyrt að spilling hafi ekki átt sér stað þarna, en þegar hlutirnir eru gerðir svona, þá er ekki hægt að fullyrða það heldur. Sú staða ein og sér er nógu slæm.”
Ekkert farið yfir næstu skref
Athygli vekur, að skrifstofa Pírata segi við Viljann að aðeins hafi verið um upplýsingafund að ræða, því til hans var boðað með auglýsingu þar sem fram kom að farið yrði yfir niðurstöður skýrslunnar og hver næstu skref ættu að verða.
„Mikilvægt er að félagið hafi rætt saman og farið yfir stöðuna í eigin persónu áður en lengra er haldið, þar sem umræða í kjötheimum er uppbyggilegri en á samfélagsmiðlum,“ sagði í fundarboðinu.
Umræða í kjötheimum er uppbyggilegri en á samfélagsmiðlum
„Við vorum að upplýsa um okkar vinnu og niðurstöðu skýrslunnar. Engin ályktun eða niðurstaða lá fyrir“, segir Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata og formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar, í samtali við Viljann, en sagði þó að rætt hafi verið að Skrifstofa eigna- og atvinnuþróunar Reykjavíkurborgar geti ekki starfað lengur í þeirri mynd sem hún er í dag, en það var hún sem innri endurskoðandi borgarinnar gagnrýndi hvað harðast í skýrslunni.
„Við borgarstjórnarflokkur Pírata höfum haft mikið frumkvæði að því að upplýsa þetta mál, þegar það kom fyrst upp, og lagt mikla áherslu á að allir angar þess yrðu skoðaðir, hverjum steini yrði velt við.”