Vinstri græn fagna tuttugu ára afmæli sínu þessa dagana og efna til málþings nk. laugardag um stöðu vinstrisins og hnattrænar áskoranir: Viðbrögð við loftslagsbreytingum og félagslegum ójöfnuði á afturhaldstímum. Gestur flokksins á afmælinu er Ed Miliband, fv. formaður breska Verkamannaflokksins og þingmaður í Bretlandi.
„Loftslagsbreytingar og félagslegur ójöfnuður eru ekki lengur málefni sem rædd eru í afmörkuðum hópum stjórnmálamanna, aðgerðasinna eða fræðimanna. Sífellt fleiri viðurkenna að tímabært sé að snúa af braut ósjálfbærni og byggja upp samfélög hagsældar og velferðar. En hvaða leiðir eru bestar?
Hvert er hlutverk vinstrisins í heimi hraðra tæknibreytinga og hvernig má efla alþjóðlega samvinnu til að sporna gegn uppgangi valdboðsstjórnmála, afturhalds og þjóðernishyggju?“ segir í fundarboði frá skrifstofu VG.
Í tengslum við tuttugu ára afmæli VG er efnt til opins málþings laugardaginn 9. febrúar á Grand hótel, Reykjavík, kl. 12:30.
Málþingið fer fram á ensku og er öllum opið.
Frummælendur eru:
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður VG: „Alþjóðleg samvinna í þágu sjálfbærni og velferðar“
Ed Miliband, þingmaður og fyrrum leiðtogi breska Verkamannaflokksins: „Er ástæða til glaðværðar á vinstri vængnum?“
Miatta Fahnbulleh, hagfræðingur og framkvæmdastjóri New Economics Foundation: „Skref í átt að nýju hagkerfi“
Kristina Háfoss, hagfræðingur, lögfræðingur og fjármálaráðherra Færeyja: „Litla er hið nýja stóra“
Beatrix Campbell, rithöfundur og aðgerðarsinni: „Geta femínísk fjármál bjargað heiminum?“
Málþinginu verður stýrt af John Nichols, blaðamanni hjá bandaríska tímaritinu The Nation.