„Það er alltaf krefjandi viðfangsefni að vera í ríkisstjórn og ekki síður óvenjulegri ríkisstjórn. Óvenjulegri vegna þess að það er sjaldgæft að ólíkir flokkar taki sig saman um að byggja brýr á milli gagnstæðra póla með velsæld fólksins í landinu að leiðarljósi. En það gerir hlutverk stjórnarandstöðu líka óvenjulegt og krefjandi enda er hún ekki síður innbyrðis ólík en ríkisstjórnin,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í stefnuræðu sinni og ríkisstjórnarinnar á Alþingi í kvöld.
„Auðvitað ætti það ekki að vera framandi. Okkar daglega líf og samskipti snúast að miklu leyti um þetta – að kunna ekki bara að hlusta á ólík sjónarmið, heldur virða þau og geta komist að sameiginlegri niðurstöðu í þágu heildarinnar. Allt frá því hvað á að vera í kvöldmatinn, hver skjátíminn á að vera og hvaða verkefnum á að forgangsraða í húsfélaginu yfir í það hvernig við aukum velsæld og náum árangri í loftslagsmálum. Öll slík verkefni byggja á því að skilgreina markmið sem eru samfélaginu til hagsbóta og finna svo leiðir að þeim – og það getur kallað á málamiðlanir um leiðina og hversu hratt markmiðum verður náð.
Ríkisstjórnin hefur tekist á við mörg stór mál með þessum hætti með góðum árangri. Það stærsta án efa heimsfaraldurinn en einnig má nefna breytingar á skattkerfinu, stuðning við kjarasamninga og kaupmáttaraukningu, rammaáætlun og fleira mætti telja. Og ég fagna því að sjá málefnalegt frumkvæði Viðreisnar að því að eiga þverpólitískt samtal um málefni útlendinga – ég held að slík vinnubrögð geti fært samfélaginu öllu árangur og framfarir.
Það eru mörg mikilvæg mál sem við þurfum að takast á við. Og ég hef enn trú á að besta pólitíkin sé að vinna að sátt um lausnirnar frekar en pólitík sem snýst um að herða pólana og færa þá lengra í sundur. Og ég er viss um að við sem byggjum þetta land erum langflest sammála um það. Ég er ekki aðdáandi þeirra stjórnmálamanna sem telja sér til tekna að semja aldrei, líta á hverja sátt sem uppgjöf og telja deilur sér til tekna fremur en sátt og samvinnu. Það er nefnilega fleira sem sameinar okkur heldur en sundrar og þessi ríkisstjórn sem nú situr var mynduð til að finna leiðir að markmiðum sem þjóðin getur sameinast um frekar en deilur og flokkadrætti.
Þar með er ekki sagt að pólitísk deilumál eigi að víkja til hliðar og lognmollan ein að ríkja. En það er sitt hvað pólitík sem annars vegar byggir á skautun, virðingarleysi fyrir pólitískum andstæðingum og popúlisma og hins vegar þeirri pólitík sem tekst á við þá staðreynd að fólkið í þessu landi hefur ólíkar skoðanir og reynir að leiða fram skynsamlega niðurstöðu mála sem megin þorri þjóðarinnar getur fellt sig við.
Verkefni þessarar ríkisstjórnar og alls Alþingis eru ljós og skýr. Meginviðfangsefnið er að ná niður verðbólgu og vöxtum og byggja ofan á þann góða árangur sem náðst hefur í efnahags- og velferðarmálum þrátt fyrir áhlaup síðustu ára. Við erum á réttri leið og nú þarf að tryggja að batinn sem fram undan er skili sér inn í íslenskt samfélag, efnahagslíf og inn á hvert heimili. Það er verkefni okkar og frá því munum við ekki hvika. Ábatann munum við sjá í vetur svo fremi sem okkur auðnist að vinna saman að stóru markmiðunum – heill og velferð íslensku þjóðarinnar,“ bætti hún við.