Einbeittur vilji til að taka upp marxískt heilbrigðiskerfi

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fv. forsætisráðherra, segir heilu undirstöðuatvinnugreinarnar í lausu lofti hér á landi sem og vinnumarkaður og fjármálakerfið meðan beðið er eftir því að ríkisstjórnin sýni spilin. Svokölluð Hvítbók sé vangaveltur sérfræðinga út í bæ, en engin sýn ríkisstjórnarinanr, engin stefna og ekkert innlegg í kjaraviðræður eða stöðu í efnahagsmálum almennt.

Þetta kom fram í máli hans við almennar stjórnmálaumræður við upphaf vorþings á Alþingi í dag. Sigmundur Davíð lýsti yfir sérstökum áhyggjum af ferðaþjónustunni, landbúnaði og matvælaframleiðslu almennt.

„Bændur eru eina stéttin þar sem er yfirlýst stefna stjórnvalda að kjör þeirra muni skerðast ár frá ári. Þetta kemur fram í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar þar sem framlög til þeirrar greinar, þeirrar stéttar, munu lækka jafnt og þétt á meðan gert er ráð fyrir stighækkandi framlögum til allra annarra stétta og starfsgreina. Hér birtust engin úrræði við lok fjárlagaumræðunnar um það hvernig menn ætluðu að bregðast við neyðarástandi í greininni, ekki einu sinni bráðabirgðaframlag eins og þó tókst að knýja á um síðast. Á sama tíma eru starfsaðstæður þessarar greinar stöðugt að verða erfiðari með stórauknum innflutningi á ófrosnu kjöti þar á meðal,“ sagði Sigmundur Davíð.

Ferðaþjónustan í óvissu

Hann sagði gríðarleg sóknarfæri felast í byggðamálum, en ekkert væri að frétta af þeim þar sem framtíðarsýnina skorti. 

„Stærsta útflutningsatvinnugrein landsins, ferðaþjónustan, er líka í óvissu, viðvarandi óvissu, svoleiðis að menn leggja ekki í framkvæmdir vegna þess að stjórnvöld veita enga sýn um hvers sé að vænta og fyrir vikið hefur samfélagið ekki þær tekjur af greininni og greinin sjálf auðvitað ekki þær tekjur sem hægt væri að skapa.

Lífeyrisþegar bíða enn eftir réttlæti á meðan ríkisstjórnin viðheldur stórskaðlegum skerðingum í stað þess að innleiða jákvæða hvata, hvata til að framleiða meiri verðmæti — það er þá til að auka um leið skatta í ríkissjóð — og hvata til þess að leyfa fólki að starfa lengur án þess að refsa því fyrir að nýta reynslu sína og þekkingu?“

Áfram haldið með fráleita framkvæmd við Hringbraut

„Heilbrigðismálin, stærsti útgjaldaliðurinn og margir myndu segja að mikilvægasta hlutverk stjórnvalda væri að tryggja velferð og heilbrigði eins og kostur er. Þar ríkir ekki bara óvissa, heldur einbeittur vilji ráðherrans til að innleiða marxískt heilbrigðiskerfi á Íslandi með þeim afleiðingum að nú er að verða til tvöfalt heilbrigðiskerfi á Íslandi.

Á sama tíma er haldið áfram með fráleita framkvæmd við nýbyggingu Landspítala við Hringbraut, þó að jafnt og þétt viku frá viku og nánast dag frá degi komi betur og betur í ljós að allar þær viðvaranir sem við höfum viðhaft um þá framkvæmd hafa reynst réttmætar.

Síðast í dag sáum við að mikill meiri hluti lækna er þeirrar skoðunar að það ætti að byggja nýjan spítala á nýjum stað. Eðlilega, allt skynsamt fólk gerir sér grein fyrir þessu en áfram heldur verkefnið með þeim hávaða, jarðskjálftum og þungavinnuvélum og miklu flutningum sem því fylgja og óþægindum fyrir starfsmenn og sjúklinga.

Menn eru einfaldlega ekki reiðubúnir að skoða nokkurn skapaðan hlut upp á nýtt og hafa ekki kjark til þess að skipta um skoðun og gera það sem er skynsamlegt,“ sagði formaður Miðflokksins.