Ekki aðeins hefur dregið úr lestri heldur risið lækkað

Gunnar Smári Egilsson, forsprakki Sósíalistaflokksins. / Ljósmynd: Útvarp Saga

„Það sýnir vel mátt samfélagsmiðla í samfélagsumræðunni núorðið að bæði leiðarahöfundur Fréttablaðsins og höfundur Reykjavíkurbréfs Moggans eyða púðri í blöðum dagsins á mig auman, ýja að stórfelldum voðaverkum mínum í fortíðinni í von um að grafa undan trúverðugleika þess sem ég skrifa,“ segir Gunnar Smári Egilsson, forystumaður Sósíalistaflokks Íslands í kvöld.

„Ég skrifa hins vegar ekkert opinberlega annað en það sem ég kasta fram hér á Facebook, það hefur ekki hvarflað að mér að skrifa grein í blað árum saman.

Viðbrögð ritstjóranna í dag sýna því ágætlega að enginn þarf á fjölmiðli að halda til að hafa áhrif á samfélagsumræðuna, atvinnulaus blaðamaður út í bæ getur meira að segja skelft svo ritstjóra stóru blaðanna svo að að þeir falli í nauðvörn gagnvart vegg prívatmanns á Facebook.

Þessi fyrrum stórveldi hafa breyst í óttalega vesalinga í höndum þeirra sem stýrt hafa þeim frá Hruni; það er ekki bara að dregið hafi úr lestri heldur hefur risið lækkað,“ segir Gunnar Smári.