Vladimir Pútín Rússlandsforseti sagði á árlegum blaðamannafundi sínum fimmtudaginn 20. desember að ekki bæri að vanmeta hættuna á að til hryllilegra kjarnorkuátaka kæmi. Hann gagnrýndi Bandaríkjastjórn fyrir að segja skilið við afvopnunarsamninga sem gerðir voru í kalda stríðinu.

Árum saman hefur Pútín efnt til um fjögurra stunda langs blaðamannafundar á þessum árstíma til að hressa upp á eigin ímynd, fullvissa Rússa um að vel sé um þá hugsað og senda skilaboð til Bandaríkjamanna og annarra þjóða heims.

Að þessu sinni sagði Pútín að kjarnorkustríð gæti „gert út af við alla siðmenningu“. Þetta er í að minnsta kosti annað sinn á tiltölulega skömmum tíma sem forsetinn lætur opinberlega orð falla í þessa veru. Hann bætir þó jafnan við að vonandi fái heilbrigð skynsemi notið sín og komið verði í veg fyrir slíkan hildarleik.

Hrun alþjóðakerfisins

Hann sagði heimsbyggðina standa frammi fyrir „hruni alþjóðakerfisins“ á sviði afvopnunarmála og sjá mætti hættuleg merki um að menn „vanmætu“ hættuna á kjarnorkustríði fyrir tilstilli Bandaríkjamanna.

Hann sagði að uppsögn Bandaríkjamanna á samningnum um bann við eldflaugavörnum (ABM-samningnum) árið 2002 hefði grafið undan „strategíska jafnvæginu“ og að áform Bandaríkjamanna um að segja skilið við samkomulagið um takmörkun meðaldrægra kjarnaflauga (INF-samkomulagið) væri skref í sömu átt.

Pútin sagði einnig slæmt að Bandaríkjamenn og Rússar ræddu ekki saman um framtíð START-samningsins um takmörkun langdrægra kjarnaflauga sem rennur út árið 2021 en má framlengja um fimm ár samþykki báðir aðilar það.

Pútin hafnaði ásökunum um að Rússar hefðu átt aðild að því sem vestrænir embættismenn kalla „illvirki“ víðsvegar um heiminn.

Stjórnmálavædd Rússagrýla

Hann gaf til kynna að Bretar og aðrar vestrænar þjóðir væru að leita að ástæðu til að beita Rússa frekari refsiaðgerðum með því að saka rússnesk stjórnvöld um að standa að baki eiturefnaárásinni á fyrrverandi rússneska njósnarann Sergei Skripal og dóttur hans á Englandi í mars.

„Þetta er fyrirsláttur, ekki annað en ástæða til að skipuleggja enn eina árásina á hendur Rússum,“ sagði forsetinn, harmaði það sem hann kallaði „stjórnmálavædda Rússagrýlu“ og bætti við: „Væru engin Skripal-fegðin myndu þeirra finna upp á einhverju öðru. Það er augljóst að mínu mati.“

Hann sagði að það hefði „alls ekki verið nein ástæða“ til að handtaka Mariu Butinu, rússneska konu sem hefur játað sig seka um að starfa sem útsendari erlends ríkis í máli sem Bandaríkjastjórn segir að sýni tilraunir valdhafa í Moskvu til að hafa áhrif á utanríkisstefnu Bandaríkjanna.

Hann sagði að Butina hefði játað sig seka „undir þrýstingi“. Hann bar blak af henni með þessum orðum: „Ég get fullvissað ykkur um að Butina vann ekki að neinum verkefnum þarna að fyrirmælum ríkisins.“

Hann vék háðuglega að Bandaríkjastjórn með þeim orðum að hann „skildi ekki til fulls“ hvað vekti fyrir Donald Trump Bandaríkjaforseta með því að kalla bandarískt herlið frá Sýrlandi. „Bandarískur her hefur verið í Afganistan í 17 ár og ár hvert segja þeir að hann verði kallaður heim, hann er þar enn,“ sagði Pútin.

Hann áréttaði fyrri fullyrðingar Rússa um að dvöl bandarísks herafla í Sýrlandi væri „ólögleg“ enda hefði hann ekki fengið boð um að koma þangað frá Bashar al-Assad Sýrlandsforseta eins og rússneski heraflinn.

Pútin sagðist hins vegar sammála Trump um að sigur hefði unnist á hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams.

Forsetinn sagði að „alvarlegur vandi“ steðjaði að „heimi Engilsaxa“: „Sjáið bara, Trump vann, það er augljós staðreynd. Enginn vill hins vegar viðurkenna sigur hans. Markmiðið er að lýsa sigur hans ólögmætan.“

Pútin fór hörðum orðum um að Úkraínumenn hefðu komið á fót eigin rétttrúnaðarkirkju í stað þess að viðhalda mörg hundruð ára tengslum við rússnesku kirkjuna. Hann skammaði stjórn Úkraínu fyrir að stíga enn eitt skrefið til að skilja á mill Rússa og Úkraínumanna. Hann gerði lítið úr Barþólemusi patríarka í Konstantínópel sem talinn er „fremstur meðal jafningja“ innan rétttrúnaðarkirkjunnar. Pútin sagði hann „tyrkneskan“ og patríarka af „Istanbúl“, Bandaríkjamenn stæðu að baki ákvörðun hans um að viðurkenna sjálfstæði kirkjunnar í Úkraínu. Patríarkinn hefði látið stjórnast af fégræðgi. Hann teldi sig geta hagnast fjárhagslega af því að fá „þetta landsvæði“ undir sig.

Pútín endurtók einnig ásakanir í garð stjórnvalda í Kænugarði vegna atviksins sem leiddi til þess að Rússar hertóku þrjú úkraínsk gæsluskip á Svartahafi 25. nóvember og hnepptu 24 Úkraínumenn í varðhald. Um mál þeirra yrði fjallað af dómurum.

„Á meðan Rússafjendur eru á valdastólum í Kænugarði – þetta fólk sem skilur ekki hagsmuni eigin þjóðar – heldur þetta óeðlilega ástand áfram, sama hver situr við völd í Kreml,“ sagði Rússlandsforseti.

Heimild: RFE/RL. Tekið af vardberg.is og birt með leyfi.