Ekki mikil reisn yfir framgöngu borgarstjóra. Algjör skortur á auðmýkt

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn. / Skjáskot af Hringbraut.

„Dagur B. Eggertsson sýnir litla auðmýkt þegar ræða á braggamálið.
Hann fer í pólítískar skotgrafir og er upptekinn af gera lítið úr öðrum borgarfulltrúum,“ segir Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn.

Hart var tekist á um braggamálið á borgarstjórnarfundi í dag og sparaði þar Dagur B. Eggertsson borgarstjóri ekki stóru orðin gagnvart málflutningi minnihlutans og tók Vigdísi Hauksdóttur og Eyþór Arnalds sérstaklega fyrir.

Eyþór segir að ekki hafi ekki verið mikil reisn yfir framgöngu borgarstjóra á fundinum, hann sé greinilega í mikilli vörn.

„Nær væri að framkvæmdastjóri borgarinnar sýndi ábyrgð og auðmýkt gagnvart þeirri staðreynd að á hans vakt var ekki bara stórfelld framúrkeyrsla, heldur um ólöglegar og óheimilar greiðslur að ræða.
Hvar er auðmýktin gagnvart því að lög um skjalavörslu eru brotin þegar skjalavarsla er á borði skrifstofu borgarstjóra? Hvar er auðmýktin gagnvart skattfé almennings?“ segir Eyþór.