Sósíalistaflokkur Íslands var ekki tilgreindur sem sérstakur svarmöguleiki í könnun MMR á fylgi stjórnmálaflokkanna, en niðurstöður könnunar sem tekin var á mánudag voru birtar í dag.
Viljinn leitaði til MMR og spurði hvort Sósíalistaflokkurinn væri ekki valmöguleiki í könnuninni og ef ekki, hvers vegna. Ólafur Gylfason hjá MMR varð fyrir svörum og hann staðfestir að ekki sé spurt um fylgi við sósíalista í könnunum fyrirtækisins.
„Það hefur hvorki komið fram framboð til alþingis frá þessum aðila né hafa gögn okkar úr fyrri könnunum bent til þess að það hafi verið ástæða til að bjóða upp á viðkomandi aðila sem sérstakan valkost. Sá þáttur er þó endurmetinn í lok hverrar könnunar,“ segir Ólafur og bendir á að svarendum sé frjálst að nefna hvaða aðila sem er.
Í könnuninni, sem birt var í dag, kemur fram að aðrir flokkar hafi mælst með samtals 4,6% fylgi. Ólafur segir að inni í þessari tölu séu þrjú framboð sem buðu fram við síðustu kosningar (og eru því á lista yfir framboð hjá MMR) en mælast með lítið fylgi. Þ.e. Björt framtíð (1,1%), Dögun (0,5%) og Alþýðufylkingin (0,8%)
Sósíalistaflokkur Íslands mældist með 3,4% fylgi í Þjóðarpúlsi Gallup um sl. mánaðarmót.