Eldskírn mín sem hagfræðingur: Öll verkefni síðar auðveld

Eftir dr. Ásgeir Jónsson:

Fyrsta alvöru vinnan mín sem hagfræðingur var fyrir Verkamannafélagið Dagsbrún. Þetta var haustið 1994 – ég 24 ára. Guðmundur J. Guðmundsson var þá formaður Dagsbrúnar – goðsögn í lifandi lífi enda ógleymanlegur maður. Mér og Jakanum kom vel saman – og unnum náið saman á þeim viðburðaríka vetri sem á eftir fylgdi. Í Dagsbrún var ég aldrei kallaður annað en „háskólamaðurinn“ enda ekki aðrir með slík próf á svæðinu.

Guðmundur lagði upp hið sk. Flóabandalag – samflot verkalýðsfélaga í Keflavík, Hafnarfirði og Reykjavík. Planið var að loka höfnum og flugvöllum á suðvesturhorninu með verkfalli til þess að knýja fram kröfugerð félagsins. Ég hafði mjög gaman að vinnunni á daginn. Á kvöldin læddist að mér efi að ég – nýútskrifaður stráklingur– réði raunverulega við það hlutverk sem mér hafði verið fengið.

Jakinn ýtti mér út í þjóðmálaumræðuna – það var hluti af starfinu hélt hann fram. Ég skrifaði fyrstu greinina í Moggann þetta haust sem bar heitið „Um furður lánskjaravísitölunnar“.

Dr. Ásgeir Jónsson hagfræðingur.

En hluti af kröfugerðinni var einmitt að breyta samsetningu hinnar sk. lánskjaravísitölu er var viðmið verðtryggingar á þeim tíma. Hins vegar var samið í febrúar 1995. Kröfugerðin var samþykkt að miklu leyti og lánskjaravísitölunni var breytt eins og við fórum fram á.

Ég heyrði hvíslað í bænum að ég hefði framið ferilsmorð. Guðmundur sjálfur hafði áhyggjur af þessu – og sagði mér að hann myndi ekki móðgast þó ég sleppti því að setja Dagsbrún á ferilskránna. Ég sagði honum að væri hreykinn af því að hafa verið hagfræðingur Dagsbrúnar – sem ég er. Þetta var eldskírn mín sem hagfræðingur – öll verkefni síðar hafa verið auðveld í samanburði.

Höfundur er dósent í hagfræði og forseti Hagfræðideildar Háskóla Íslands.