Elliði bendir á ójafnt kynjahlutfall starfsmanna Íslandsbanka

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi.

„[Ég] hlýt að trúa því að bankinn minn hafi sjálfur tryggt jafnt kynjahlufall áður en hann ræðst gegn ójöfnu kynjahlutfalli fjölmiðla.“ 

Þetta er á meðal þess sem Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi, skrifar á heimasíðu sína í dag, í framhaldi af frétt Vísis um að Íslandsbanki ætli að hætta að kaupa auglýsingar af fjölmiðlum sem ekki eru með nægilega margar konur í dagskrárgerð og þáttum sínum, skv. Eddu Hermannsdóttur, markaðs- og samskiptastjóra bankans.

Elliði vekur athygli á að samkvæmt Samfélagsskýrslu Íslandsbanka frá árinu 2016 voru konur 64% af starfsmönnum Íslandsbanka.  Á landsbyggðinni voru konur 74% af starfmönnum bankans.  Nýrri samfélagsskýrslu frá bankanum sé ekki að finna á netinu.

Skjáskot úr skýrslunni.

Körlum líkt við plastmengun

Haft er eftir Eddu í pistli Vísi í vikunni: „Við gefum ekki börnum plastvörur fyrir að spara heldur aukum við skemmtilega upplifun, við forðumst að kaupa þjónustu af fyrirtækjum sem fylla herbergið aðeins af karlmönnum, við prentum ekki skýrslur og við kveðjum auglýsingar hjá fjölmiðlum sem bjóða upp á afgerandi kynjahalla.“

Elliði gerir þetta jafnframt að umtalsefni og segir:

„Nú er það svo að allir, eða að minnsta kosti vel flestir, telja sig talsmenn jafnréttis.  Ekki verður þó hjá því litið hér er langt seilst í baráttunni……. enda fjármálastofnanir stór kaupandi auglýsinga.  Fast er að orði kveðið hjá bankanum og baráttunni gegn því að fjölmiðlar hafi fleiri karla en konur í vinnu er líkt við baráttu við eina stærstu vá sem mannkynið stendur frami fyrir – baráttu gegn plasti í náttúrunni.“