„Ég er ekki sátt við þessa framkomu og það voru mín skilaboð,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menntamálaráðherra um samskipti sín við Gunnar Braga Sveinsson á þingi í dag, en ekki fór framhjá neinum þegar hún gekk í tvígang til Gunnars Braga þar sem hann var í sæti sínu og átti við hann orðastað.
Lilja Dögg og Gunnar Bragi eru gamlir samherjar úr framsókn, en með Klaustursmálinu varð vík milli vina, eins og alþjóð er kunnugt. Báðar sjónvarpsstöðvarnar sýndu frá samskiptum þeirra í þingsal í kvöldfréttatímum sínum, en hvorugt vildi þó ræða í smáatriðum hvað þeim fór í milli.
Lilja Dögg sagði í fréttum RÚV, að hún hefði lesið grein Bergþórs Ólasonar í Morgunblaðinu í morgun, en samt ekki áttað sig á því fyrr en í þingsalinn var komið í morgun að hann og Gunnar Bragi væru snúnir aftur úr launalausu leyfi.
Hún sagði hins vegar kjörna fulltrúa hafa skyldur til að halda störfum sínum áfram og lagði áherslu á að aðalpersónur í Klaustursmálinu hefðu ekki dagskrárvaldið í umræðunni.
Gunnar Bragi sagði í samtali við Stöð 2, að hann sæi eftir því að hafa ekki látið Lilju vita fyrirfram af því að þeir væru að koma aftur. Þau væru gamlir vinir.
„Ég sé kannski mest eftir því að hafa ekki látið Lilju Alfreðsdóttur vita því við erum ágætir vinir, vorum ágætir vinir, og verðum það vonandi áfram, og kunningjar þrátt fyrir þetta.“