Kristín Soffía Jónsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, segir að það sé fráleit krafa að borgarstjóri víki úr hópi sem ætlað er að rýna í niðurstöður skýrslu innri endurskoðunar borgarinnar um braggamálið.
„Það er mikill samhugur í meirihlutanum. Við erum öll sammála um að þetta sé vont mál en sem betur fer fór það í góðan farveg,“ sagði Kristín Soffía á Morgunvaktinni á Rás 1, í morgun.
Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, var skipuð í rýnihópinn fyrir jól ásamt borgarstjóra og formanni borgarráðs. Hún hefur lýst því yfir, að hún taki ekki sæti í hópnum ef borgarstjóri ætli að vera þar og rýna eigin gjörðir og sök í málinu, það sé algjörlega óeðlilegt.
„Ég er ekki sammála Hildi að það sé einhver niðurstaða að Dagur B. Eggertsson beri ábyrgð, þvert á móti, það sem kemur skýrt fram er að það sé engin ástæða til að hengja þetta utan um hálsinn á honum,“ sagði Kristín Soffía í viðtalinu
Píratar ákveða næstu skref
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, sagði fyrir jól að Dagur B. Eggertsson njóti enn stuðnings Pírata í starfi. Hún segir flokk sinn þó eiga eftir að funda um stöðu hans í ljósi braggamálsins svonefnda í janúar.
„Þetta er ekki gott mál og í raun óásættanlegt. Ég er algjörlega sammála niðurstöðum skýrslunnar en finnst eðlilegt að við sem flokkur rýnum sameiginlega í skýrsluna,“ sagði hún við Fréttavef Morgunblaðsins á Þorláksmessu.
„Það verður haldinn fundur með grasrótinni í janúar þar sem skoðað verður hvaða formlegu ákvarðanir verða teknar í framhaldinu. Ég ber fullt traust til Dags og við styðjum hann þar til annað kemur í ljós,“ sagði hún.