Engin ríkisstjórn haft jafnmarga aðstoðarmenn

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra svarar fréttamönnum að loknum ríkisstjórnarfundi . / Ljósmynd: Facebook forsætisráðherra.

Tuttugu og sex manns bera nú starfstitilinn aðstoðarmaður ráðherra eða aðstoðarmaður ríkisstjórnarinnar og hafa þeir aldrei verið jafn margir. Þetta kemur fram í svari forsætisráðherra við fyrirspurn frá Bergþóri Ólasyni um pólitískt ráðna aðstoðarmenn innan Stjórnarráðsins.

Núgildandi lög um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, tóku gildi 28. september 2011. Við gildistöku laganna voru heimildir ráðherra til að ráða aðstoðarmenn rýmkaðar og segir í svari forsætisráðherra að það hafi meðal annars verið gert til að tryggja „eðlilega og faglega aðgreiningu á milli hins tvíþætta hlutverks ráðherra sem stjórnvaldshafa annars vegar og pólitísks stefnumótunaraðila hins vegar“.

Þá voru jafnframt settar skýrari reglur um hlutverk og stöðu aðstoðarmanna ráðherra í stjórnkerfinu. Nú er ráðherrum heimilt að ráða sér að hámarki tvo aðstoðarmenn en að auki getur ríkisstjórnin ákveðið að ráða þrjá til viðbótar ef þörf krefur.