Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur og varaþingmaður Birgis Þórarinssonar, hefur engu svarað ítrekuðum fyrirspurnum fjölmiðla um hvort rétt sé að hún hafi yfirgefið Miðflokkinn og fylgt Birgi yfir í Sjálfstæðisflokkinn, eins og hann tilkynnti í gærmorgun.
Viljinn sendi Ernu fyrirspurn um málið í gærmorgun og hefur ítrekað hana án þess að svar hafi borist. Sama hafa aðrir fjölmiðlar gert án þess að varaþingmaðurinn nýbakaði hafi gefið nokkur svör.
Samkvæmt heimildum Viljans hefur Erna sagt stuðningsmönnum sínum í einkasamtölum að hún hafi ekki yfirgefið Miðflokkinn og í tíu fréttum Ríkissjónvarpsins kom fram að Alþingi hafi ekki borist nein tilkynning um flokkaskipti af hennar hálfu.
Því liggur ekki fyrir hvort Birgir fór með rangt mál þegar hann tilkynnti að þau Erna væru bæði farin yfir í Sjálfstæðisflokkinn, en líklegt er að staðan skýrist betur á næstu dögum.