Borgarstjórinn í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson, svaraði fyrir sig í umræðum um braggamálið í borgarstjórn í dag og var harðorður í garð Vigdísar Hauksdóttur borgarfulltrúa Miðflokksins. Sakaði hann sjálfstæðismenn um að fylgja Vigdísi í einu og öllu, jafnvel út í skurð, eins og hann orðaði það og sagði að Vigdís hefði magalent fyrir fundinn með því að breyta orðalagi í tillögu um að vísa bæri málinu til Héraðssaksóknara.
Dagur sagði að tillaga Vigdísar og Flokks fólksins hefði verið ótrúleg, hún hefði gengið út á að breyta borgarstjórnarsalnum í einhvers konar ákæruvettvang um sakhæfi. Með breytingunni nú væri staðfest að hún hefði magalent makalausum málflutningi sínum algjörlega út í skurði.
Miklar umræður standa nú yfir um braggamálið í borgarstjórn og eins og Viljinn hefur skýrt frá, er hægt að fylgjast með þeim í beinni útsendingu.
Fyrir borgarstjórnarfundinn í dag tilkynntu borgarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins að þær hefðu breytt áður boðaðri tillögu sinni um að vísa málinu til saksóknara. Væri það gert til að skapa breiðari samstöðu um málið. Nú gengur tillagan út á að borgarlögmaður vísi málinu til þar til bærra yfirvalda á borð við lögreglu og saksóknara.
Dagur sagðist fagna breytingunni „út frá virðingu borgarstjórnar“ en sagði þó að þar með sæti Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, einn eftir í skurðinum. Hann hefði kiknað í hjánum, eins og svo oft þegar Vigdís opnaði munninn og tekið undir þessi vanhugsuðu tillögu.
Kvaðst borgarstjóri vonast til að Sjálfstæðisflokkurinn láti sér þetta að kenningu verða, nema það sé þannig að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins „sé genginn í Vigdísi Hauksdóttur.“