James Mattis sagði fimmtudaginn 20. desember af sér sem varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Í afsagnarbréfi sínu áréttaði hann ágreining sinn við Donald Trump forseta vegna framkomu við bandamenn Bandaríkjanna og afstöðunnar til „illvirkja og strategískra keppinauta“ á alþjóðavettvangi. Forsetinn hefði rétt til að hafa við hlið sér varnarmálaráðherra sem væri honum meira sammála.
Í október sagði Trump að Mattis væri demókrati. Bent er á að verri einkunn geti forsetinn varla gefið nokkrum manni. Í bók Bobs Woodwards um stjórnarhæltti Trumps kemur fram að Mattis virðist hafa getað talað forsetann ofan af ýmsu sem honum kom til hugar að gera. Í Washington er almælt að Mattis sé einn af fáum sem hafi tekist að koma vitinu fyrir Trump.
Afsögnina ber að daginn eftir að Trump tilkynnti skyndilega að hann ætlaði að kalla allan bandarískan herafla frá Sýrlandi. Þá hafa einnig borist fréttir um að forsetinn hafi í huga að kalla heim um helminginn af 14.000 manna herliði Bandaríkjanna í Afganistan.
Mattis er andvígur þessum ákvörðunum forsetans en hefur ákveðið að sitja í ráðherraembættinu til 28. febrúar 2019 svo að öldungadeild Bandaríkjaþings fái svigrúm til að samþykkja tilnefningu forsetans á nýjum varnarmálaráðherra. Þá getur hann einnig sótt varnarmálaráðherrafund NATO-ríkjanna sem haldinn verður í febrúar. Starfsfélagar hans þar telja skarð fyrir skildi við brottför Mattis, hann hafi oftar en einu sinni verið „rödd skynseminnar“ á fundum þar sem Trump hafi farið mikinn í gagnrýni sinni á bandamennina í NATO og skeytingarleysi þeirra í garð bandarískra skattgreiðenda.
Í afsagnarbréfi sínu lagði Mattis áherslu á nauðsyn NATO og hvatti til þess að Bandaríkjamenn yrðu „staðfastir og án tvíræðni“ í afstöðu til Kínverja og Rússa. Styrkur Bandaríkjamanna fælist í því að standa vörð um einstakt og víðtækt net bandamanna og samstarfsaðila. Bandaríkin gætu ekki gegnt lykilhlutverki sínu sem grunnstoð í frjálsum heimi án þess án þess að lögð væri rækt við aðild að bandalögum og bandamönnunum sýnd virðing.
Einhliða ákvörðun Trumps um að kalla um 2.000 bandaríska hermenn frá Sýrlandi kom bandamönnum Bandaríkjanna þar í opna skjöldu. Hún sætti gagnrýni repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings. Breskir og franskir embættismenn lýstu efasemdum um réttmæti fullyrðinga Trumps um að hryðjuverkamenn í Sýrlandi hefðu verið sigraðir. Vladimir Pútin Rússlandsforseti sagðist hins vegar sammála Trump.
Forsetinn tilkynnti afsögn Mattis á Twitter rétt áður en opinber tilkynning kom um hana frá varnarmálaráðuneytinu.
Á innan við tveimur vikum hafa þrír ráðherrar í stjórn Trumps tilkynnt afsögn sína. Ákvörðun Mattis getur orðið Trump hættuleg að sögn sérfræðinga því að hún veldur því að þeir áhrifamiklir repúblikanar lýsa nú óánægju sinni opinberlega og ekki aðeins vegna brottfarar Mattis.
Á vefsíðunni Axios er haft eftir fyrrverandi aðstoðarmanni Trumps sem vill að sér sé lýst sem „bandamanni Trumps“ að skyndileg gagnrýnisbylgja meðal þingmanna vegna heimkvaðningar hermannanna frá Sýrlandi og brottfarar Mattis ætti að hræða Trump því að hann eigi allt undir þingmönnum verði honum stefnt fyrir þingið með kröfu um afsögn hans:
„Þegar þingmenn repúblíkana byrja að finna að forsetanum opinberlega eins og vegna þessarar stefnu verður auðveldara fyrir þá að segja: ´Þetta er ekki aðeins Mueller [sérstaki saksóknarinn] eða siðamál. Það er ýmislegt annað.´ Þá er farið að halla undan fæti.“
Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana í öldungadeildinni, kvað óvenjulega fast að orði þegar hann sagðist „miður sín“ vegna brottfarar Mattis. „Það er dapurlegt að forsetinn verði nú að velja nýjan varnarmálaráðherra. Ég skora á hann að velja forystumann sem hefur sömu grundvallarviðhorf og Mattis.“
Eli Lake, dálkahöfundur hjá Bloomberg, sagði: „Donald Trump veit það kannski ekki enn að forsetaembættið hans er að hrynja.
Á meðan Mattis starfaði fyrir forsetann gátu óánægðir repúblikanar bent á Pentagon [varnarmálaráðuneytið] og sagt: Ef Mattis styður Trump geri ég það. Þeir geta það ekki lengur.“
Axios segir að unnið sé út frá því í Hvíta húsinu að fulltrúadeild Bandaríkjaþings ákæri Trump og sakfelli. Hann þarf þá að eiga öruggan stuðning 34 öldungadeildarþingmanna repúblíkana sem neita að svipta hann embætti (til þess þarf 67 atkvæði).
Á vefsíðunni segir einnig að embættismenn og þingmenn láti það berast að Trump kvarti nú þegar undan verðandi liðsstjóra sínum, Mick Mulaveny, í einkasamtölum. Trump spurði til dæmis ráðgjafa sem hann treystir: „Vissir þú að [Mulvaney] kallaði mig „hræðilega mannveru“ í kosningabaráttunni?“
Af vardberg.is, birt með leyfi.