Hver könnunin á fætur annarri leiðir nú í ljós að íslenska þjóðin er að snúa baki við ríkisstjórninni sem nú situr. Síðast í morgun birti Ríkisútvarpið niðurstöður Þjóðarpúls Gallup sem leiðir í ljós að stuðningur við ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur aldrei verið minni. Og það sem meira er: Þetta er minnsti stuðningur sem mælst hefur við sitjandi ríkisstjórn síðan í júlí 2017. Sú stjórn sprakk einum og hálfum mánuði síðar, eins og frægt var.
Þróunin er öll á einn veg og staðan er að breytast hratt milli mánaða. Ástæðuna er ekki aðeins að finna í fjölmörgum umdeildum málum á borð við söluferlið á Íslandsbanka eða bann við hvalveiðum með nokkurra klukkustunda fyrirvara. Fyrst og fremst er eins og fólk sé að missa trúna á að Katrín Jakobsdóttir, Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson séu rétta fólkið til að stýra landinu og koma með alvöru lausnir við risastórum aðkallandi vandamálum. Það er eins og ríkisstjórn þessara þriggja flokka þvert yfir hinn pólitíska ás sé ekki lengur með neitt plan, annað en að sitja út kjörtímabilið.
Þjóðin er farin að fá að tilfinninguna að ekki fari saman hljóð og mynd. Það vantar ekki fyrirheitin og blaðamannafundina. En svo er veruleikinn eitthvað allt annað. Endalaust er búið að kynna fyrir okkur gríðarlegt átak í uppbyggingu samgöngumannvirkja og íbúðarhúsnæðis, svo dæmi sé tekið, en svo sýna tölur opinberra stofnana svart á hvítu að minna er framkvæmt en áður. Vandinn er þannig alltaf að aukast en lausnir ríkisstjórnarinnar sem felast í flottum glærukynningum leysa ekki neitt. Ekki frekar en samkomulag daginn fyrir sveitarstjórnarkosningar um nýja þjóðarhöll sem átti að rísa á kjörtímabilinu. Ekkert hefur frést af þeirri framkvæmd síðan og búið að blása hana af. Það var aldrei nein innistæða fyrir stóryrðunum og fjölmiðlar hafa brugðist í því að veita sanngjarnt og eðlilegt aðhald. Þeir birta bara nýjar yfirlýsingar, segja frá nýjum fyrirheitum og loforðum en spyrja ekkert um vanefndirnar og raunveruleikann sem blasir við okkur öllum.
Sá veruleiki er nefnilega ekki alveg nógu kræsilegur. Verðlag í landinu hefur rokið upp, það er allt miklu dýrara en áður. Venjulegur Íslendingur finnur fyrir því í innkaupum sínum, jafnvel þótt hann versli aðeins þar sem það er hagstæðast. Allt annað hefur hækkað líka; við fáum minna fyrir peninginn en áður. Vextir eru í hæstu hæðum enda verðbólgan of mikil og Seðlabankinn bíður eftir útspili ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum. Þar situr fjármálaráðherrann núna að undirbúa útgjaldatillögur næstu fjárlaga sem þurfa að vera klárar innan tveggja mánaða og verkefnið núna ætti að vera að hemja ríkisútgjöld á öllum sviðum svo við komumst sem fyrst út úr verðbólgubálinu. En mun hann ná að sannfæra samstarfsflokkana um alvöru aðhald? Flokka sem hafa hríðfallið í könnunum og horfa fram á bakland í sárum?
Þjóðarpúlsinn í morgun sýnir að Samfylkingin er áfram langstærsti flokkurinn, ef kosið væri nú, fengi 28,4% fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 20,8% fylgi, Framsókn er í frjálsu falli með tæplega 9 prósenta fylgi og Vinstri græn, flokkur sjálfs forsætisráðherrans er um sex prósent í fylgi, eða á svipuðum slóðum og Flokkur fólksins.
Athygli vekur að Miðflokkurinn virðist genginn í endurnýjun lífdaga, hann er kominn í um átta prósent fylgi og litlu munar á fylgi tveggja manna þingflokks Sigmundar Davíðs og Bergþórs Ólasonar og þess sem Píratar og Viðreisn fá. Það sýnir að fylgið er á fleygiferð og að fólk er opnara en áður fyrir gagnrýni sé sett hefur verið fram á stjórnmál sem hverfast um ímynd og völd, fremur en raunverulegar aðgerðir og alvöru markmið.
Undir venjulegum kringumstæðum værum við að sigla inn í dauðasta tímann í fréttum og pólitík á Íslandi. En fólkið í ríkisstjórnarflokkunum er orðið meðvitað um að lognið í júlí er svikalogn og að framundan eru gríðarleg pólitísk átök og uppgjör. Framhald ríkisstjórnarinnar hangir einfaldlega á bláþræði. Stemningin er farin og majónesan orðin gul. Hvað ætla Katrín, Bjarni Ben og Sigurður Ingi að gera í því?