„Sagt er að núverandi ríkisstjórn sé skárri með Sjálfstæðisflokkinn innanborðs en utan. Hagsmunir samfélagsins eru þó þeir að boðberar sjálfstæðisstefnunnar standi stíft í ístaðinu. Það kann að kalla á að flokkurinn sinni skyldum um tíma utan ríkisstjórnar. Mögulega er komið að því nú“, sagði Stefán Einar Stefánsson, viðskiptasiðfræðingur og fjölmiðlamaður, á laugardagsfundi Sjálftæðisfélags Kópavogs í morgun, þar sem hann var ræðumaður.
Sagðist Stefán Einar trúa því að það sé verðugra hlutskipti að vera „frábær í stjórnarandstöðu, en skárri í ríkisstjórn“ og vísaði til þess að Sjálfstæðisflokkurinn fagni að rúmum fimm árum liðnum aldarafmæli og allt frá stofnun 25. maí 1929 hafi hann verið burðarás í íslensku þjóðfélagi og haft mikil, og sennilega meiri áhrif en nokkur annar flokkur á það hvernig tekist hafi til um uppbyggingu samfélagsins.
„Þar hefur meira máli skipt en nokkuð annað, það meginstef sem sjálfstæðisstefnan byggir í grunninn á, að mikilvægustu undirstöður samfélagsins séu þróttmiklir og frjálsir einstaklingar, sem fá tækifæri til þess að á grundvelli víðtæks athafnafrelsis, að skapa sér og samfélaginu um leið auð. Helstu keppinautar Sjálfstæðisflokksins hafa alla tíð litið svo á að undirstöðurnar séu aðrar, þ.e. ríkisvald og millifærslukerfi sem þá dreymir reyndar sjálfa um að stýra, oft sjálfum sér og sínum til hagsbóta.
Það sama fólk stillir Sjálfstæðisflokknum, og okkur sem aðhyllumst stefnu hans, oft upp sem fólki sem á grundvelli hugsjónar þessarar, skeytum ekki um þá sem höllum fæti standa, og að hugmyndin sé aðeins sú að mylja sem mest undir þá sem mikið eiga fyrir. Stefnan sjálf, og framkvæmd hennar, vitnar hins vegar um annan og merkilegri veruleika.
Sjálfstæðisflokkurinn er að sönnu ekki félagshyggjuflokkur, þ.e. að hann hafi ofurtrú á mætti ríkisvaldsins og getu þess til þess að skorða alla hluti af með góðum árangri, en hann er samfélagsflokkur í víðtækustu merkingu orðsins. Að þeir sem hafi dug og getu til þess að skapa verðmætin, leggi réttlátan skerf til samfélagsins svo jafna megi stöðu fólks og tryggja öllum mannsæmandi líf, hvort sem orkan leyfir það á grundvelli sjálfsafla eða með stuðningi frá öðrum.
Vinstrimennirnir fussa yfir svona tali. En það þarf ekki annað en að líta til félagsþjónustunnar í Reykjavík, höfuðborginni sjálfri, sem var mjög öflug og framúrstefnuleg á sinni tíð, eða allt til þess að Samfylkingin og fylgihnettir hennar, holuðu hana að innan gerðu að máttlitlu tæki til aðstoðar þeim sem minnimáttar eru,“ bætti hann við og rifjaði upp að hugmyndafræði félagsþjónustunnar hefði verið mótuð af tveimur ágætum prófessorum við guðfræðideild Háskóla Íslands, þeim Birni Björnssyni og Þórði Kr. Þórðarsyni, sem hefðu verið sjálfstæðismenn og það „helbláir“ eins og það sé stundum orðað til þess að brennimerkja Sjálfstæðismenn.
Allt á vakt Sjálfstæðisflokksins
Óhætt er að tala um eldmessu Stefáns Einars hjá sjálfstæðismönnum í Kópavogi í dag. Hann benti á að aðeins einu sinni í sögu Sjálfstæðisflokksins hafi hann endað með minna fylgi en annar flokkur í kosningum til Alþingis. Það hafi verið 2009 eftir hamfarirnar sem dundu á samfélaginu.
„Þá náði Samfylkingin 30% fylgi, þrátt fyrir að hafa verið í ríkisstjórn þegar ósköpin öll urðu og höfðu reyndar á tímanum fyrir það gerst helstu málpípur þeirra viðskiptasamsteypa sem reyndust helsti veikleiki hagkerfisins þegar alþjóðleg fjármálakreppa skall á ströndum landsins eins og víða annarsstaðar.
Nú er að nýju raunveruleg hætta á því að Sjálfstæðisflokkurinn missi sinn sess sem burðarás stjórnmála nna, skilgreint út frá þingstyrk eða atkvæðavægi.Það gerist á sama tíma og nú styttist í að einn og hálfur áratugur verði liðinn frá því að Sjálfstæðisflokkurinn leiddi síðast ríkisstjórn, ef undanskildir eru fáir mánuðir á árin 2017 þegar furðustjórn flokksins með Viðreisn og Bjartri framtíð var við lýði.
Nú í hádeginu gerist það svo að í fyrsta sinn í heilan áratug að formaður Sjálfstæðisflokksins gegnir ekki annað hvort forsætis- eða fjármálaráðherraembætti. Vissulega ekki án fordæma eins og við þekkjum frá árunum 2004-2005,“ sagði hann ennfremur og tiltók svo nokkur dæmi sem gerst hefðu á „vakt Sjálfstæðisflokksins“, til dæmis hvernig báknið þendist út og væri komið í 1.400 milljarða með auknum umsvifum ríkisins og enn sé verið að fjölga stofnunum, t.d. með Mannréttindastofnun Íslands sem enginn viti hvaða hlutverki eigi að gegna. Starfsmannafjöldinn blási út eftir því og alls ekki aðeins í framlínustörfum eða velferðarkerfinu.
Nýframkvæmdum sé furðulega forgangsraðað, til dæmis ný skrifstofubygging Alþingis, ný skrifstofubygging fyrir forsætisráðuneytið og utanríkisráðuneytið taki yfir drjúgan hluta Landsbankahallarinnar. Þetta gerist þrátt fyrir að þjónustan aukist ekki. Fólk finni ekki fyrir bættri þjónustu. Biðlistar styttist ekki og Landspítalinn virðist sífellt fjársveltur. Flokkurinn hafiekki burði til þess að breyta kerfinu. Þannig hafi liðskiptasetri verið komið á fót á Akranesi í samkeppni við glæsileg einkafyrirtæki sem geti framkvæmt aðgerðirnar og þjónustað fólk á mun hagkvæmari og skilvirkari hátt en Landspítalinn.
Gagnrýndi Stefán Einar til dæmis að tekjuskattur á fyrirtæki hafi nú verið hækkaður og sagt tímabundið. „Fjármálaráðherra segir að hann muni aftur lækka á sinni vakt. Ljóst er að það verður ekki. Millifærslur aukast sífellt. Stjórnmálaflokkar eru komnir á fullkomið framfæri ríkisins. Fjölmiðlarnir einnig á sama tíma og 6,2 milljörðum er dælt í RÚV. Bókaútgáfan er sífellt háðari opinberum styrkjum. Meira að segja bílaleigurnar þiggja nú styrki frá ríkinu. Milljarð vegna rafbílakaupa. Bara Bílaleiga Akureyrar hagnaðist um 1,8 milljarða króna í fyrra,
Pósturinn er á framfæri ríkisins vegna meintrar alþjónustubyrði. Milljörðum er dælt inn í fyrirtækið sem er rekið með stjarnfræðilegum halla vegna fjárfestinga sem allar miða að því að keppa við einkaaðila á markaði með pakkasendingar.
Fátt ef nokkuð getur komið í veg fyrir orkukreppu á Íslandi á næstu 5 til 10 árum. Ekkert hefur gengið við að afla frekari orku og satíran í kringum Rammaáætlanir hefur valdið fullkomnu frosti á þeim markaði. Í skjóli Sjálfstæðisflokksins var framkvæmdastjóri Landverndar gerður að umhverfisráðherra og olli embættisfærsla hans milljarðatjóni fyrir þjóðarbúið til komandi ára.
Okkur verður of lítið ágengt í uppbyggingu mikilvægra innviða. Sundabrautin er kannski þekktasta dæmið þar um. Tvöföldun Hvalfjarðarganga annað. Stjórnvöld skella skollaeyrum við augljósum ábendingum um mikilvægi vega- og gangnagerðar á Vestfjörðum þar sem næsta efnahagsævintýri landsins er í burðarliðnum. Illa gengur að kalla einkaaðila að uppbyggingunni, eða lífeyrissjóði sem gætu vel fjármagnað mörg þessara verkefna þannig að framkvæmdakostnaðurinn dreifðist sem best yfir nokkra áratugi.
Vonleysið í þessum málum birtist best í því þegar innviðaráðherrann, sem aldrei sleppir tækifæri til þess að slá pólitískar, en ódýrar keilur, hætti gjaldtöku í Hvalfjarðargöngum, þegar sjálfsagt hefði verið að halda henni áfram til þess að safna fyrir tvöföldun ganganna eða öðrum mikilvægum samgönguinnviðum.
Við höfum brugðist í málefnum landamæranna þar sem algjört stefnuleysi og andlitslaus nefnd hefur opnað fyrir flóðgáttir fólksflutninga til landsins á skökkum forsendum. Ekkert annað ríki Evrópu hefur haldið svo slælega á sínum málum.
Löggæslan er veik og það hefur ekki einu sinni tekist að koma í gegn lagabreytingum sem styðja við möguleika lögreglunnar til þess að berjast gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Það gerist á sama tíma og við sjáum ástandið versna til muna í Svíþjóð og við höfum beinlínis séð mann tekinn af lífi á heimili sínu í uppgjöri milli þessara hópa. Píratarnir, beina sérstaklega blinda auganu að þessum vanda – og reynist þeim auðvelt enda allir píratar með lepp fyrir öðru auganu og blindir á hinu.
Allt eru þetta dæmi sem þreyta Sjálfstæðismenn, og það sem verra er – margt það fólk sem væri líklegt til þess að kjósa flokkinn ef það tryði því að það væri eitthvað að marka loforðin sem hann gefur.
Er það sjálfstæðisstefnan sem hefur misst erindi sitt? Eða höfum við brugðist?“ spurði Stefán Einar Stefánsson ennfremur og undirstrikaði að samfélagið standi frammi fyrir gríðarlegum áskorunum á komandi árum. Það tengist ekki síst öldrun þjóðarinnar og auknum þjónustuþunga í heilbrigðiskerfinu þar sem meðferðir við alvarlegum sjúkdómum verða betri og betri, og dýrari og dýrari.
„Við þær aðstæður þarf að gjörnýta þá fjármuni sem ríkið tekur til sín í formi skatttekna. Það er því áhersla sjálfstæðisstefnunnar á að styðja sem best við þá sem höllum fæti standa, annað hvort vegna sjúkdóma eða annarra áfalla, sem kallar á öfluga velferð og betri ríkisrekstur.
Sagt er að núverandi ríkisstjórn sé skárri með Sjálfstæðisflokkinn innanborðs en utan. Hagsmunir samfélagsins eru þó þeir að boðberar sjálfstæðisstefnunnar standi stíft í ístaðinu. Það kann að kalla á að flokkurinn sinni skyldum um tíma utan ríkisstjórnar. Mögulega er komið að því nú.
Ég trúi því að það sé verðugra hlutskipti að vera frábær í stjórnarandstöðu, en skárri í ríkisstjórn.“