Er vanhæfur forseti að taka fram hvernig afgreiða á Klaustursmálið?

Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis.

Samstaða mun vera um það innan þingsins að kjósa nýja forsætisnefnd skipaða tveimur til þremur þingmönnum eða fleirum til að koma Klausturmálinu í farveg og vísa því til siðanefndar. Þeir þingmenn þurfa að vera óumdeilanlega hæfir og hafi ekki tjáð sig um málið svo hægt sé að draga hæfi þeirra í efa. Þetta verður eina verkefni nefndarinnar, að því er fram kom í fréttum Ríkisútvarpsins í gær.

Jón Steinar Gunnlaugsson fv. hæstaréttardómari, segist í samtali við Viljann ekki sjá hvernig þetta komi heim og saman við lög og reglur um vanhæfi.

„Þegar menn lýsa því, að skipa þurfi nýja menn til að leysa úr máli vegna vanhæfis þeirra sem fyrir sitja, þekki ég ekki dæmi þess að jafnframt sé tekið fram hvernig hinir nýskipuðu skuli afgreiða málið að efni til,“ segir Jón Steinar.

Jón Steinar Gunnlaugsson, fv. hæstaréttardómari.

„Ég fæ ekki betur séð en Steingrímur geri það,“ bætir hann við, en Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, hefur boðað að sérstök forsætisnefnd verði kosin í næstu viku með afbrigðum frá þingsköpum.

Hann staðfestir að ætla sjálfur að gera tillögur um þá þingmenn sem eiga að skipa nefndina og hennar hlutverk verði að vísa málinu til siðanefndar Alþingis.

Þetta hefur vakið athygli, því Steingrímur hefur, eins og gervöll forsætisnefndin, áður sagt sig frá málinu vegna vanhæfis, þar sem forsætisnefndarmenn höfðu tjáð sig um Klaustursmálið með einum eða öðrum hætti á opinberum vettvangi.