Vaðlaheiðargöng munu breyta meiru en margur sér fyrir í dag, ómældir möguleikar skapast í breyttri búsetu og atvinnuþátttöku, menningarstarfi, nýjungum í ferðaþjónustu og fleira, segir Þröstur Friðfinnsson sveitarstjóri á Grenivík.
Þröstur segir í pistli, sem birtist á heimasíðu bæjarins, að göngin hafi verið umdeild og á ýmsu gengið sem ekki var vænst í upphafi.
„Íbúar á svæðinu þekkja þörfina, þekkja óveðrin, ófærðina, tjón á bílum og hættuna á Víkurskarði. Þekkja af reynslu þau mörgu alvarlegu slys sem þar hafa orðið. Það er ótrúlegur hroki að hafna þessari fullvissu heimamanna á svæðinu um þörf fyrir göng og halda því fram að vegurinn um Víkurskarð sé fullgóður.
Ekki síður er það gróf afbökun að halda því hikstalaust fram að kostnaðurinn lendi á ríkinu, að þessum fjármunum hefði mátt verja í heilbrigðiskerfið eða hvað annað sem hentaði.
Þó göngin kosti meira en ráð var fyrir gert, hefur umferðin aukist langt umfram spár líka og nú sýnist að göngin eigi að geta greitt sig upp af umferðinni á svipuðum tíma og í upphafi var áætlað. Engir fjármunir eru teknir frá öðrum verkefnum ríkisins, ríkið hefur tekið lán og endurlánað með verulegum vaxtamun.
Ríkið hefur því þegar haft gríðarlega fjármuni í tekjur af þeim vaxtamun sem reiknast sem hluti kostnaðar við göngin. Þessar hreinu tekjur ríkisins skipta ekki hundruðum milljóna, nær lagi er líklega einn til tveir milljarðar nú við opnun ganganna. Lánsupphæðin er óveruleg í samhengi við fjárhag ríkisins og skerðir því í engu möguleika til fjármögnunar annarra verkefna, þaðan af síður framlög til rekstrar. Göngin styrkja því beint rekstur ríkisins og auka í raun við möguleg framlög t.d. til heilbrigðismála, vegna þess tekjustreymis sem nefnt hefur verið sem og afleiddra tekna og nú virðisaukaskatts af veggjöldum.
Vatnið nýtist um ókomna tíð
Göngin þykja dýr í öllu samhengi sem er að vissu leyti rétt, enda mikið mannvirki. Enn þarf þó að nefna nokkra hluti sem ekki fara alltaf hátt í umræðunni. Í Vaðlaheiðargöngum er hærra öryggisstig en áður hefur þekkst í göngum á Íslandi. Fjögur stór neyðarrými má nefna, bætta lýsingu og meiri breidd gangnanna. Þá er talinn með í framkvæmdinni allur kostnaður við vegagerð utan vegskála beggja megin, það lætur nærri að bara sú vegagerð kosti 750 milljónir. Þannig greiða notendur ganganna ekki bara fyrir göngin sjálf, heldur vegi beggja vegna. Við öll önnur göng hefur vegagerð við enda gangna lent á Vegagerðinni og ekki verið talin til gangnakostnaðar.
Mikill kostnaður hefur orðið af hinu mikla vatnsflæði í göngunum, bæði heitu og köldu vatni. Það er fordæmalaust. Enn ber hér að hafa í huga að ekki er bara um að ræða sokkinn kostnað, heldur mun kalda vatnið nýtast Akureyringum sem neysluvatn um ókomna tíð og heita vatnið má nýta til ýmissa hluta líka hafi menn til þess hugkvæmni og dug, sem vonir standa til. Framkvæmdastjóri Norðurorku hefur raunar kallað vatnið í göngunum lottóvinning fyrir Akureyringa.
Menn tala um að of dýrt sé í göngin. Staðreyndin er hins vegar sú að þó miðað sé við fullt gjald, er það bara á pari við raunkostnað við ekinn kílometra, ef farið er yfir Víkurskarð. Með afsláttargjöldum verður ferðin sannanlega ódýrari. Menn geta blekkt sjálfa sig um stund og reiknað einungis eldsneytiskostnað til samanburðar, en að lokum átta sig allir á því að það er raunsparnaður í krónum talið að aka göngin, tímasparnaðinn fá menn í bónus. Þetta á líka við um rútufyrirtæki, enda fráleitt að ferðir yfir Víkurskarð kosti hvorki eldsneyti, slit á dekkjum eða bifreiðum, né laun. Þeirra viðskiptavinir munu taka lengri stopp við náttúruperlur fram yfir setu í rútu yfir Víkurskarð, kynnu jafnvel að vilja greiða örlítið fyrir það aukalega, það yrði þá hrein tekjulind fyrir fyrirtækin.
Þó ætla mætti að við hér út með firði að austan hefðum kannski ekki mestan hag af göngunum, eru sennilega ekki margir sem hafa fundið jafn skarpt fyrir breytingunni við opnun þeirra. Umferðin á Svalbarðsströnd sem var orðin gríðarmikil, færist nú að stærstum hluta í göngin. Það hefur strax bætt búsetuskilyrði hér merkjanlega að losna við þessa miklu og hættulegu umferð af ströndinni enda margir hér sem fara jafnvel daglega þessa leið. Ekki síður munu bændur á Svalbarðsströnd verða fegnir að komast um í heyskap eða við áburðargjöf án þess að vera nánast í Miklubrautarumferð.
Það verður spennandi að sjá á næstu árum hvernig göngin munu breyta ferðamynstri, búsetu, menningu, menntamöguleikum og atvinnusókn, svo fátt eitt sé nefnt.
Líftími ganga er mjög langur
Ég hef lengi talað fyrir endurbótum á vegi um Fnjóskadal og Dalsmynni. Sá vegur mun í framtíðinni fá nýtt og aukið vægi og spái ég að hann muni taka við hlutverki varaleiðar með tíð og tíma. Þetta er afskaplega falleg leið, fer um byggð og verður partur af leiðum ferðamanna. Hlutverk vegar um Vikurskarð verður hins vegar nánast ekkert, nema þá helst í huga þeirra sem fjarri búa og þekkja ekki til staðhátta.
Líftími ganga er mjög langur og margfalt lengri en áætlaður endurgreiðslutími. Eftir um þrjá áratugi eignast þjóðin þetta góða mannvirki og getur nýtt til langrar framtíðar. Þeir sem búa á svæðinu munu að lang stærstum hluta greiða göngin sjálfir með notkun sinni og kunna vel að meta hina gríðarlegu samgöngubót.
Íbúar annarsstaðar á landinu mega hins vegar þakka fyrir þann mikla beina ávinning sem fjárhagur ríkisins hefur af þessari framkvæmd og þann sparnað í rekstri sem þau munu skapa. Einnig sparast hjá ríkinu framkvæmdaskostnaður á svæðinu, það var hreint ekkert sjálfgefið að umferðin kostaði þessa samgöngubót frekar en ýmsar aðrar. Þessi jákvæðu áhrif á fjárhag ríkisins nýtast öllum og ættu því landsmenn hvarvetna að fagna þessari framkvæmd, fremur en að hafa hana á hornum sér,“ segir sveitarstjórinn ennfremur í pistli sínum.