Vaxandi þungi er meðal óánægjuradda innan Sjálfstæðisflokksins vegna ríkisstjórnarsamstarfsins. Formaður verkalýðsráðs flokksins tekur undir með Jóni Gunnarssyni að útséð sé með það að núverandi ríkisstjórn muni gera nokkuð svo einhverju nemi til þess að bæta úr því ófremdarástandi, sem ekki bara stefnir í, heldur er viðvarandi í orkumálum.
Eins og Viljinn skýrði frá í gær, sagðist Jón Gunnarsson fv. ráðherra ekki treysta ríkisstjórninni til að leysa úr orkukreppunni sem blasir við vegna aðgerðaleysis í virkjanamálum á undanförnum árum. Hann sagði að mynda þyrfti nýjan meirihluta á þingi um lausn mála eða boða til kosninga.
Enn meiri ábyrgðarhluti að halda hér úti verklítilli og vanhæfri ríkisstjórn
Þingmenn Miðflokks og Viðreisnar stigu fram á þingi í gær og lýstu yfir vilja til að standa að slíkri lagasetningu, enda varðaði málið þjóðaröryggi.
„Þar sem ríkisstjórnin virðist ætla að vera með öllu óhæf til að leiða okkur út úr þessum vanda, þarf hér Alþingi að grípa inn í og setja lög sem grisja verulega þennan gríðarlega reglugerða og leyfisveitingafrumskóg sem mætir þeim er reisa vill virkjun er afkastar meiru en 10 megawöttum. Enda á þessi hamlandi frumskógur sér stoð í lögum sem vel er hægt að breyta eða fella úr gildi, á sama hátt og þeim var komið á, á sínum tíma.
Boltinn er hjá Alþingi, þar sem ríkisstjórnin vill ekki sjá hann eða snerta. Víkja þarf með lögum, tímabundið eða til framtíðar, úr vegi öllu því sem hindrar eðlilega orkuuppbyggingu í landinu. Það mætti kalla það neyðaraðgerðir um að auka raforkuframleiðslu í landinu. Tíminn til þess er núna.
Það má vel vera að það hrikti í stjórnarsamstarfinu, fari Alþingi í þessa vegferð. Menn fari að tala um að það ábyrgðarhluti að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu út af málinu. En það er í sjálfu sér enn meiri ábyrgðarhluti að halda hér úti verklítilli ríkisstjórn, sem vanhæf er með öllu til þess að stuðla að eðlilegri og sjálfsagðri uppbygginu innviða og orkuframleiðslu.
Kosti það stjórnarslit að leysa þennan vanda, þá er það gjaldið fyrir lausn hans,“ segir Kristinn Karl Brynjarsson, formaður Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins í aðsendri grein á Vísi.