Flokksráð VG lýsir yfir fullum stuðningi við hvalveiðibann Svandísar

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra.

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Flúðum 26.-27. ágúst 2023, fagnar þeirri vinnu sem matvælaráðherra hefur unnið í tengslum við hvalveiðar sem byggir á faglegu mati og sjónarmiðum dýravelferðar.

Þetta segir í ályktun fundarins, en deilur hafa staðið um hvalveiðibann sem Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra setti á snemmsumars með eins dags fyrirvara. Hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins sagt bannið brot á stjórnarsáttmála.

„Flokksráðsfundurinn lýsir yfir fullum stuðningi við þær ráðstafanir sem gripið hefur verið til fram til þessa. Fundurinn áréttar samþykkta stefnu VG um hvalveiðar og að dýravelferðarsjónarmið verði áfram ráðandi í þeirri vinnu sem framundan er,“ segir í ályktuninni.