Á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins, sem haldinn verður nk. laugardag, 26. ágúst, hefur Félag Sjálfstæðismanna um fullveldismál (FSF) ákveðið að leggja fram tillögu til ályktunar sem hljómar svo:
Flokksráð Sjálfstæðisflokksins hvetur utanríkisráðherra til að draga til baka frumvarp til laga um breytingar á lögum um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993 (bókun 35).
Sjálfstæðisflokkurinn mun standa vörð um fullveldi Íslands og frelsi þjóðarinnar til að setja sín eigin lög án ytri þvingunar.
Bókun 35 er svohljóðandi: „Vegna tilvika þar sem getur komið til árekstra á milli EES-reglna sem komnar eru til framkvæmdar og annarra settra laga, skuldbinda EFTA-ríkin sig til að setja, ef þörf krefur, lagaákvæði þess efnis að EES-reglur gildi í þeim tilvikum.“
Arnar Þór Jónsson, varaþingmaður og formaður félagsins, segir ekki markmiðið með þessu að skemma ,,góða stemningu“ á fundinum heldur að minna á nauðsyn þess að Sjálfstæðismenn standi vörð um grunngildi og stefnuskrá flokksins með lýðræði, frelsi og fullveldi Íslands að leiðarljósi.