Forsætisráðherra tók Áslaugu Örnu á teppið í morgun: „Alls ekki viðeigandi“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra beið ekki boðanna eftir heimkomu frá leiðtogafundi í Granada í í nótt og tók Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur nýsköpunar- og háskólamálaráðherra á teppið eftir ríkisstjórnarfund í morgun. Segir hún ummæli Áslaugar Örnu og framsetningu hennar á sjávarútvegsdaginn um Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra, alls ekki hafa verið viðeigandi.

Ráðherrarnir ræddu við fjölmiðla eftir ríkisstjórnarfund í morgun.

„Áslaug Arna ræddi við mig eftir ríkisstjórnarfund í morgun. Ég sagði henni þá skoðun mína að stjórnmálamenn sem vilja telja sig vera forystufólk í stjórnmálum og vilja láta taka sig alvarlega, að það sé mikilvægt að þeir vandi sig þegar þeir ræða um samstarfsmenn sína. Það sé gert af ábyrgð og virðingu,“ sagði forsætisráðherra í viðtali við RÚV.

Áslaug Arna segir að sér þyki leitt að Svandísi hafi sárnað ummælin, en það sé ekki leyndarmál að þær séu ekki sammála um margt í pólitík. Umræddur ræðubútur hafi að sínu mati verið slitinn úr samhengi við umfjöllunarefni ræðu hennar.

Viljinn greindi fyrstur frá ummælum Áslaugar Örnu, beint af sjávarútvegsdeginum. Síðar var upptaka birt af fundinum, þar sem sést að ummælin voru hluti af fyrirfram undirbúinni ræðu, þar sem m.a. var mynd af Svandísi í glærukynningu ráðherrans.