Forsætisráðherrar biðjast lausnar

Ráðuneyti Bjarna Benediktssonar sprakk í loft upp eftir næturfund Bjartrar framtíðar.

Viljinn fylgdist eins og fleiri með greiningu fjölmiðla á stórtíðindum gærdagsins. Bjarni Benediktsson tilkynnti á óvæntum blaðamannafundi að hann hygðist víkja úr embætti fjármálaráðherra án þess þó að gera grein fyrir því hvað tæki við.

Þetta eru söguleg tíðindi enda hefur Bjarni setið lengur í embætti formanns Sjálfstæðisflokksins en nokkur annar, að Davíð Oddssyni frátöldum. Hann hefur auk þess verið fjármálaráðherra í meira en áratug að frátöldum þeim mánuðum þegar Bjarni var forsætisráðherra í skammlífri ríkisstjórn.

Þetta eru því athyglisverðir tímar, en athygli hefur vakið að marga fjölmiðla og sérfræðinga á sviði stjórnmálafræði virðist skorta sögulegt minni.

Margir hafa haldið því fram að Bjarni sé sjöundi ráðherrann til að segja af sér. Auk hans eru nefndir ráðherrarnir Albert Guðmundsson, Guðmundur Árni Stefánsson, Björgvin G. Sigurðsson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Sigríður Á Andersen.

Kallinn, sem er áhugamaður um stjórnmál og sögu landsins og er eldri en tvævetur í þeim efnum, varð nokkuð undrandi að sjá hvern fjölmiðilinn á eftir öðrum endurtaka þessa söguskýringu.

Ef byrjað er á stjórnmálafræðinni vakti það athygli hversu margir virtust ekki átta sig á því að forsætisráðherrar segja ekki af sér, þeir biðjast lausnar. Það gerði einn af sjömenningunum, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. En það hafa fjölmargir fyrrum forsætisráðherrar gert af ýmsum ástæðum. Þar má í seinni tíð nefna þau Jóhönnu Sigurðardóttur (eftir minnihlutastjórn), Geir H. Haarde, Davíð Oddsson, Halldór Ásgrímsson og Þorstein Pálsson. Og jú, umræddan Bjarni Benediktsson sem baðst lausnar sem forsætisráðherra 2017 eftir frægan næturfund Bjartrar framtíðar sem er ekki lengur til.

En hvað með aðra ráðherra? Hvort sem menn vilja orða það sem svo að þeir biðjist lausnar eða segi af sér hafa fjölmargir ráðherrar gert það í gegnum tíðina, að frátöldum sjömenningunum sem fjölmiðlamenn samtímans muna eftir.

Kallinn telur það ekki sitt hlutverk að veita fjölmiðlum og álitsgjöfum kennslustund, þótt hann telji mikilvægt að halda sögunni til haga. Hann lætur því nægja að nefna fáeina ráðherra sem gegndu embætti um skamma hríð á átakatímum, þá Stefán Jóhann Stefánsson sem var utanríkisráðherra í nokkra mánuði á stríðsárunum, Eystein Jónsson fjármálaráðherra í tæpa fimm mánuði í ráðuneyti Ólafs Thors og Emil Jónsson, utanríkisráðherra í rúma tvo mánuði árið 1956.

Marga aðra mætti tína til þótt kallinn láti það ógert, að sinni. En á tímum umróts og upplýsingaóreiðu taldi hann þó rétt að benda á mikilvægi vandaðra stjórnmálaskýringa…