Mitt Romney var forsetaframbjóðandi repúblíkana í Bandaríkjunum árið 2012. Hann var nú í nóvember kjörinn öldungadeildarþingmaður fyrir Utah-ríki og tekur sæti á þinginu í Washington fimmtudaginn 3. janúar. Hann ritaði grein í The Washington Post þriðjudaginn 1. janúar, nýársdag, sem vakið hefur mikla athygli innan og utan Bandaríkjanna vegna gagnrýni hans á flokksbróður sínum, Donald Trump Bandaríkjaforseta. Trump studdi Romney í þingkosningunum í nóvember. Grein Romneys er af mörgum túlkuð á þann veg að hann ætli að taka forystu í gagnrýni á Trump á Bandaríkjaþingi.
Í upphafi greinarinnar segir Romney að forsetaferill Trumps hafi tekið „mikla dýfu“ í desember. Hann vísar til þess að þá hafi Jim Mattis varnarmálaráðherra og John F, Kelly, liðsstjóri Trumps í Hvíta húsinu, tilkynnt afsagnir sínar, hæfileikaminni menn veljist í þeirra stað, bandamenn Bandaríkjanna hafi verið yfirgefnir og forsetinn hafi gefið hugsunarlausa fullyrðingu um að Bandaríkjamenn hafi lengi verið hafðir að „ginningarfífli“ í alþjóðamálum, allt þetta lækki risið á forsetaembættinu.
Romney minnir á að hann studdi ekki Donald Trump í forsetaembættið. Hann hafi þó vonað að sem frambjóðandi flokksins mundi Trump halda aftur af fordómum sínum og þeirri áráttu sinni að uppnefna fólk. Þetta hafi ekki gerst. Þá vonaði hann að þetta yrði á betri veg eftir að Trump náði kjöri. Það hafi lofað góðu að hann skipaði Rex Tillerson, Jeff Sessions, Nikki Haley, Gary Cohn, H.R. McMaster, Kelly og Mattis í há embætti. Á hinn bóginn sýni undanfarin tvö ár og þó sérstaklega það sem gerðist í desember að forsetinn „rísi ekki undir þunga embættisins“.
Forsetanum hefur þó ekki mistekist allt að mati Romneys. Það hafi verið rétt að laga bandaríska fyrirtækjaskatta að því sem tíðkast í samkeppnislöndunum, minnka regluverkið, snúast gegn ósanngjörnum viðskiptaháttum Kínverja, endurbæta sakamálalöggjöfina og skipa íhaldssama dómara.
Hann segir að versti gallinn við Trump sé að hann gefi ekki gott fordæmi með stjórnarháttum sínum. Þeir einkennist ekki af heiðarleika og stuðli ekki að virðingu í skoðanaskiptum milli manna og flokka.
Þá hafi gerðir og orð Trumps valdið vonbrigðum víða um heim. Könnun sýndi árið 2016 að 84% aðspurðra í Þýskalandi, Bretlandi, Frakklandi, Kanada og Svíþjóð töldu að Bandaríkjaforseti mundi „bregðast rétt við á alþjóðavettvangi“. Einu ári síðar hafði hlutfallið lækkað í 16%.
Heimurinn þarfnast forystu Bandaríkjamanna og það er Bandaríkjamönnum í hag að veita hana segir Romney. Þessi forysta verði ekki endurheimt án umbóta í bandarískum stjórnmálum. Þar þurfi sá sem gegni æðsta embættinu auðvitað að sýna gott fordæmi, að hvetja og sameina en ekki að skapa ótta og óvild. Standa verði vörð um grundvallarstofnanir eins og frjálsa fjölmiðla, réttarríkið, öflugar kirkjudeildir og ábyrg fyrirtæki og launþegasamtök.
Huga verði að fjárhagsstöðu Bandaríkjanna, skapa jafnvægi í ríkisfjármálum. Efla tengsl við aðrar þjóðir. Bandaríkjamenn eigi að ýta undir sameinaða og öfluga Evrópu en ekki stuðla að upplausn þar.
Með því að tíunda þessa málaflokka vill Romney lýsa meginverkefnum sínum sem öldungadeildarþingmanns. Hann ætli að styðja stefnumál þjóðinni og kjósendum til heilla. Hann ætli ekki að eltast við allt sem sagt sé á Twitter eða það sem miður fer. Hann muni hins vegar snúast gegn yfirlýsingum sem hann telji ýta undir sundurlyndi, rasisma, karlrembu, útlendingaóvild, óheiðarleika eða grafa undan lýðræðislegum stofnunum.
Af vardberg.is, birt með leyfi.