Framhaldið ræðst á Þingvöllum í dag: Vonandi fer ríkisstjórnin að hysja upp um sig brækurnar

Frá síðasta ríkisráðsfundi á Bessastöðum.

Brátt fer að draga til tíðinda í enn einni hringekjunni sem stjórnarflokkarnir bjóða landsmönnum upp á í nafni hins pólitíska stöðugleika, sem þó hefur ekki jafn stöðugur og stefnt var að upphaflega. Þing­flokk­ar stjórn­ar­flokk­anna munu funda sam­eig­in­lega á Þing­völl­um í dag, að því er Morgunblaðið greinir frá. Rík­is­ráðsfund­ur verður á Bessa­stöðum á morg­un, þar sem formlega verður gengið frá endurskipan ráðuneytis Katrínar Jakobsdóttur.

Lítið hefur verið rætt um einstök ráðuneyti eða ráðherrakapalinn undanfarna daga, heldur fremur unnið með að þétta raðir stjórnarflokkanna og ræða hvaða mál er mikilvægasta að vinna að næstunni. Í reynd má segja að kannað hafi verið hvort unnt sé að halda áfram með þetta samstarf og raunar endurlífga það.

Forystumenn stjórnarflokkanna eru meðvitaðir um slæmt gengi í skoðanakönnunum og óánægju innan einstakra flokka með verkleysi og áherslur ríkisstjórnarinnar og vilja nota þetta tækifæri, úr því Bjarni Benediktsson sagði af sér sem fjármála- og efnahagsráðherra, til að skerpa línurnar og setja markmið.

Morgunblaðið segir að á vinnufundum síðustu daga hafi ólíkar áherslur stjórnarflokkanna í umdeildum málum á borð við hælisleitendamál og orkumál komið til umræða, en líka baráttan gegn verðbólgu, uppbygging á húsnæðismarkaði og staða efnahagsmála almennt.

Borgalega sinnað fólk hlýtur að vonast til þess að niðurstaðan verði sú að auðlindir þjóðarinnar verði nýttar áfram með skynsamlegum hætti og raunverulegum aðgerðum hrint af stað í stað þess að enginn árangur verði og allt stopp. Bjarni Benediktsson mun eflaust taka við nýju ráðuneyti og líklegast skipta við varaformann flokks síns, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur. Hvort breytingar verða á fleiri ráðuneytum á eftir að koma í ljós, en þar hlýtur staða Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra mjög að koma til álita.